Kaffihúsinu vel tekið
Þær voru góðar móttökurnar, sem félagskonur Listatorgs í Sandgerðisbæ, fengu þegar þær stóðu fyrir opnun kaffihúss um síðustu helgi í Efra Sandgerði, elsta húsi bæjarins.
Gestum fannst gaman að koma inn í þetta elsta og sögulega hús bæjarins en bæjarfélagið Sandgerði dregur einmitt nafn sitt af þessari jörð, þarna var búskapur í gamla daga.
Svo mikil var ánægja bæjarbúa, að hjón gáfu blómvönd í tilefni dagsins og vonuðust til að kaffihúsið væri komið til að vera. Þrír litlir bæjarbúar komu ma. í heimsókn, keyptu sér vöfflur og sögðust hafa beðið spenntir eftir opnun þess.
Félagskonur Listatorgs sögðu að framkvæmdin hefði lukkast mjög vel og fengu þær hátt í sextíu gesti þessa fyrstu helgi, sem þeim fannst alveg frábært. Með bjartsýni að vopni réðust þær í verkefnið þessa helgi og fjöldi gesta sýndi þeim enn frekar að markaður er fyrir kaffihús í Sandgerðisbæ. Þetta sé góð byrjun.
Eftir að Ósabotnavegurinn opnaði, þá hefur umferð ferðamanna aukist til muna í bæjarfélaginu, enda skemmtilegur rúntur. Þær segja að fólk kíki þá í galleríið í Listatorgi og Fræðasetur. Svo vilji ferðamenn oftast kaffiveitingar til að toppa ferðalagið en sú þjónusta er núna ekki fyrir hendi í Sandgerðisbæ. Þær ákváðu því að prófa að bjóða upp á kaffihús þessa helgi og vonast þær til að fleiri líknarfélög eða félagasamtök taki við boltanum og bjóði upp á kaffiveitingar þarna næstu helgar. Þetta sé frábær leið til fjáröflunar en þær stöllur gáfu afrakstur kaffisölunnar í líknarsjóð Lionsmanna, sem eiga húsið Efra Sandgerði.