Kaffihlaðborð til styrktar Velferðarsjóði
Þær Helga Jónsdóttir, Gísla Vigfúsdóttir og Anna Jónsdóttir standa að myndarlegu kaffihlaðborði á mánudögum og þriðjudögum á Glóðinni fram til 16. desember og rennur allur ágóði af sölunni til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja.
Þær stöllur standa að kaffihlaðborðinu á eigin vegum með fulltingi bakaría og fyrirtækja á svæðinu sem standa dyggilega að baki þeim og Glóðin lætur salinn í té endurgjaldslaust.
Kaffihlaðborðið er drekkhlaðið kræsingum gegn frjálsum framlögum þeirra sem vilja njóta og styrkja gott málefni. Lámarksupphæð er 200 kr. á mann. Greiðslur fara í sérstakan söfnunarkassa sem aafhentur verður Velferðarsjóði Suðurnesja eftir 16. desember en þá er síðasta kaffihlaðborðið.
Velferðarsjóður Suðurnesja var stofnaður í síðasta mánuði og er honum ætlað að styðja við bakið á fjölskyldum og einstaklingum á svæðinu, umfram þau úrræði sem þegar eru í boði. Sjóðurinn er starfræktur í samstarfi við Hjálparstarf Kirkjunnar. Allir geta lagt sjóðnum lið, bæði með beinum fjárframlögum, söfnunum eða öðru framtaki.
VFmynd/elg: Helga Jónsdóttir, Gísla Vigfúsdóttir og Anna Jónsdóttir standa að kaffihlaðborði á Glóðinni og rennur ágóðinn í Velferðarsjóð á Suðurnesjum.