Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kaffi er þjóðardrykkur Íslendinga
Miðvikudagur 9. júní 2004 kl. 21:31

Kaffi er þjóðardrykkur Íslendinga

Aðalheiður Héðinsdóttir eigandi Kaffitárs er ánægð með kaffihátíð Reykjanesbæjar. Eins og gefur að skilja er hún mikil kaffimanneskja og henni finnst Kenya kaffið frá Kaffitári besta kaffið. Víkurfréttir leituðu til Aðalheiðar og spurðu hana kaffispurninga.

Hvað er gott kaffi?
Þetta er eins og að spyrja hvað sé gott vín. Gott kaffi er það sem fólk hefur ánægju af að drekka.
Hvenær færðu þér fyrsta kaffibollann á morgnana?
Svona um hálf níu.
Hvernig finnst þér hann?
Yfirleitt alveg svakalega góður og hann er yfirleitt besti bolli dagsins.
Hvernig kaffi færðu þér?
Ég fæ mér alltaf svart kaffi og þá það kaffi sem er uppáhellt hverju sinni.
Hvað drekkurðu mikið kaffi yfir daginn?
Svona þrjá til fjóra bolla.
Hvernig kaffi þá?
Allt mögulegt. Kaffi latte og Capuchino. Við erum að gera fullt af köldum kaffidrykkjum og ég hef undanfarið verið að prófa það.
Áttu þér uppáhaldskaffi frá Kaffitári?
Kenya kaffið finnst mér best.
Færðu þér kaffisopa á kvöldin?
Einstaka sinnum. Ég er voðalega viðkvæm fyrir koffeini þannig að á kvöldin fæ ég mér stundum koffeinlaust kaffi.
Ertu vandlát á kaffi þegar þú ferð á veitingastaði?
Jú frekar en ég reyni samt að drekka kaffið með opnum huga. Ég panta mér yfirleitt kaffi á veitingastað og reyni að vera ekki krítísk. En ég spyr alltaf hvaðan kaffið kemur og ef það er frá ákveðnum framleiðendum þá kaupi ég mér ekki kaffi því ég veit hvernig það bragðast. En mér finnst kaffibolli eftir mat vera svo mikill hluti af máltíðinni að ég reyni alltaf að kaupa mér kaffi á veitingastöðum.
Er það rétt að 90% af kaffi í heiminum sé komið af einni kaffiplöntu?
Já sagan segir svo.
Þegar þú ferð erlendis þræðirðu þá kaffihúsin og prófar?
Já, alveg stöðugt.
Hvernig líst þér á kaffihátíðina í Reykjanesbæ?
Mér líst alveg svakalega vel á hátíðina. Ég er sannfærð um að þetta verði skemmtilegt  sem allir geti tekið þátt í. Kaffi er þjóðardrykkur Íslendinga og kemur við sögu á hverju einasta heimili, alla daga ársins.
Hvað verður að gerast hjá Kaffitári?
Við verðum með fræðslu frá mismunandi kaffiframleiðslulöndum þar sem við gefum fólki að smakka kaffi. Það koma þekktir bragðlaukar til með að smakka framleiðsluna frá Kaffitári í ár og spá í hvernig landslagið er í kaffiheiminum 2004. Um kvöldið eru síðan tónleikar með Birtu Rós og hljómsveit en þau eru  með jass sveiflu með suðrænu ívafi og að sjálfsögðu verða kaffidrykkir á barnum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024