Jónsmessuganga Bláa Lónsins
Jónsmessuganga Bláa Lónsins og Grindavíkur verður haldin laugardaginn næstkomandi, þann 23. júní. Gangan hefst kl. 20.30 og lagt verður af stað frá Sundlaug Grindavíkur. Gengið verður upp á fjallið Þorbjörn þar sem varðeldur verður tendraður. Áætlað er að ferðin taki um tvær og hálfa klukkustund.
Tónlistarmaðurinn, vinsæli, Svavar Knútur mun sjá um söng og gítarspil á fjallinu. Dagskráin endar í Bláa Lóninu þar sem þátttakendur geta notið Jónsmessunæturinnar í töfrandi umhverfi Bláa Lónsins.
Bláa Lónið verður opið til kl. 24.00 þetta kvöld. Enginn þátttökukostnaður er í gönguna og eru þátttakendur á eigin ábyrgð. Þeim þátttakendum sem vilja njóta Blue Lagoon Spa að göngu lokinni býðst grunn spa aðgangur sérverði kr. 3.500,
Sætaferðir verða með Kynnisferðum frá BSÍ kl. 19.30 og SBK frá Reykjanesbæ kl. 20.00. Einnig verður boðið upp á sætaferðir frá Bláa Lóninu til Grindavíkur, Reykjanesbæjar kl. 01.00 og Reykjavíkur kl. 00.30. Sætaferð frá Reykjanesbæ kostar kr. 1.500, og sætaferð frá BSÍ kr. 3.500,- Verðin miðast við ferðir báðar leiðir.
Gangan sem er samstarfsverkefni Bláa Lónsins og Grindavíkur hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, sagði að verkefnið sem er eitt af mörgum samstarfsverkefnum Bláa Lónsins væri sérstaklega skemmtilegt samstarfsverkefni þar sem það veitti þátttakendum tækifæri til að upplifa einstaka náttúru svæðisins á bjartasta tíma ársins. „Bláa Lónið er eitt af 25 undrum veraldar og því einstakt að njóta Jónsmessunar í Bláa Lóninu og umhverfi þess hér í Grindavík,“ sagði Róbert.
Jónsmessugangan veitir þátttakendum nýja sýn á Bláa Lónið og umhverfi þess umlukið töfrum Jónsmessunar. „Gangan hefur átt miklum vinsældum að fagna undanfarin ár. Þátttakendur njóta góðrar útiveru og fallegs útsýnis í góðum félagsskap göngufólks, en gangan hentar öllum aldursflokkum er og því tilvalin fyrir alla fjölskylduna.“