Jónsmessuganga á Þorbjörn
Laugardagskvöldið 21. júní bjóða Bláa Lónið og Grindavíkurbær upp á Jónsmessugöngu á fjallið Þorbjörn.
Lagt verður af stað frá sundlaug Grindavíkur kl. 20.30 og er áætlað að gangan taki um þrjár klukkustundir.
Gangan hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár enda skemmtileg afþreying fyrir alla fjölskylduna. Þegar á toppinn er komið skemmtir Ingó með söng og gítarleik við varðeld. Jafnframt verður dregið úr réttum lausnum í söguratleik Grindavíkur ´08.
Göngunni lýkur við Bláa lónið en það verður opið lengur vegna göngunnar. Ingó mætir þangað með gítarinn og heldur uppi fjörinu.
Enginn þátttökukostnaður er í gönguna en þátttakendur greiða aðgang í Bláa lónið.
Kynnisferðir verða með sætaferðir til Grindavíkur frá BSÍ klukkan 19.30 og SBK kl. 20.00 frá Reykjanesbæ.
Sætaferðir frá Bláa Lóninu verða til Grindavíkur kl 00:30 og til Reykjanesbæjar og Reykjavíkur kl. 01:00.