Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jón hrútur gengur betur við hæl en nokkur hundur
Frístundabóndinn Aron og Jón hrútur. VF/Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 11. júní 2023 kl. 06:53

Jón hrútur gengur betur við hæl en nokkur hundur

– segir frístundabóndinn Aron Arnbjörnsson á Nýlendu

Aron Arnbjörnsson er bílstjóri hjá Olís að atvinnu en hefur frekar óhefðbundið áhugamál ef svo má segja – Aron stundar frístundabúskap þar sem hann býr úti á Stafnesi. „Ég var mikið í sveit þegar ég var yngri og hef alltaf haft gaman af dýrum,“ sagði Aron þegar Víkurfréttir litu í heimsókn til hans á Nýlendu. „Mig hefur lengi dreymt að vera í sveit og með bú. Kannski ekki alveg af þessari stærðargráðu  en maður þarf að byrja einhvers staðar.“

Aron segist ekki stefna á að stækka bústofninn, allavega ekki á meðan hann býr á Nýlendu, en er nægur tími til að sinna svona frístundabúskap í hjágreinum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Maður býr hann til. Hérna heima á bænum er ég með tvo heimalninga, tvo hunda, kött, tvær kanínur og rollur í sumarbeit í hólfi. Svo er ég með gæsir og hænur.“

Og nýtir þú þetta allt til manneldis?

„Já, þetta er allt til manneldis – nema hundarnir, kötturinn og kanínurnar.“

Það er að mörgu að huga í svona búskap. Hvað eru þetta margar skjátur sem þú ert með?

„Í vetur var ég með átta á húsi, veturfóðraðar. Svo komu sex lömb undan þeim og tvö aukalömb sem ég var beðinn um að taka í fóstur. Það eru heimalningarnir sem eru hérna í kringum okkur.“

Féð búið undir að fara í sumarhólfið.

Þetta eru eins og hvolpar, skoppandi í kringum þig.

„Já, eldri heimalningurirnn, þessi stærri. Hann Jón hrútur, hann gengur hæl mun betur heldur en hundar. Hann er mjög duglegur þar, það má segja að hann sé eins og hundur. Ef maður hleypur af stað þá hleypur hann af stað líka.“

Hvað ætlarðu að gera við þessu lömb sem þú fékkst í vor, eru þau til að stækka stofninn?

„Nei, þau fara svo bara í sláturhús. Ég er með gimbra sem eru að bætast í stofninn, þannig að ég verð með fleiri sem bera á næsta ári heldur en núna – en ég stækka stofninn aldrei meira en húsið leyfir.“

Er ekki fínt að vera í þessu hérna úti á nesi, að vera svona úti í náttúrunni?

„Ég vil hvergi annars staðar vera en í sveit. Það er langbest, svo mikill friður og ferskt loft. Sjórinn hérna við hliðina á manni,“ segir Aron en hann nýtir sér einnig aðgengið að sjónum sér og sínum til viðurværis.

„Ég er líka með bát sem ég nota til þess að fara hérna út á sjóstöng og ná mér í soðið. Svo er ég líka á veiðum á önd og gæs, reyndar lítið hér. Ég stunda það annars staðar.“

Aron segist ekki vera alveg sjálfum sér nægur þegar kemur að því að afla matar fyrir fjölskylduna – það sé ennþá ýmislegt sem þarf að sækja í búðina en megnið af kjöti og fisk sjái hann um sjálfur. Hann ræktaði kartöflur en segist hafa gefist upp á því þegar grasvöxturinn var orðinn of mikill.

Fjölskyldan á Nýlendu. Mària, unnusta Arons, Sigurður, Aron og Díana. Með þeim á myndinni eru kanínurnar tvær, Myrkvi og Orio, hundurinn Rambo og Jón hrútur.


Heilt yfir ekkert svo mikil vinna

Aron segir að frístundabúskap eins og hann er með fylgi ekkert svo mikil vinna. „Þetta er meira tímabil þar sem er mikið að gera, aðallega á vorin og haustin. Svo er maður náttúrlega í því að setja á rétt fyrir jól. Þannig að maður er ekki vakinn og sofinn yfir þessu.“

Hvað gerir þú við féð yfir sumartímann?

„Þegar lömbin eru tilbúin að fara út þá fara þau niður á tún og eru þar í svolitla stund. Svo smölum við þeim saman í hólf hérna á túninu og förum með féð á kerrum upp í sumararhólfið þar sem það er fram að réttum í haust.“

Þegar þú ert með svona frístundabúskap, þarftu að leggja til hjálp við smölun hér á Reykjanesinu eða er það bara ykkar hólf sem þú þarft að sinna?

„Já, við sinnum okkar hólfi í sameiningu. Höldum við girðingum sem á að vera það örugg að féð sé ekki að fara neitt úr hólfinu. Svo er alltaf einhverjar sem finna sér leiðir og ná að koma sér út fyrir. Þá hringjumst við saman og náum þeim inn sem fyrst.

Þannig að við þurfum ekki að fara í neinar göngur, þetta er bara hólfið hjá okkur sem við smölum og rekum niður.“

Hvað er svo skemmtilegast við það að vera frístundabóndi?

„Það er bara félagsskapurinn og að njóta þess að vera með dýrunum.“

Er félagsskapur dýra betri en manna?

„Alltaf. Þau eru heiðarlegri.“

Hvaða dýrategundum heldurðu að þú bætir við næst?

„Það verður bara að koma í ljós, það er ekkert á döfinni sem stendur. Ég held að þetta sé orðinn ágætis dýragarður núna – en maður veit aldrei hvað verður,“ segir frístundabóndinn og glottir.

Sauðburðurinn vinsæll tími hjá fjölskyldufólki

Aron segir að fólki finnist sérstaklega gaman að kíkja með börnin til sín eftir sauðburðinn. „Það finnst öllum svo gaman að fá að sjá lömbin. Svo þegar ég tók ákvörðun að vera með heimalning þótti það mjög spennandi, að fá að koma og gefa heimalningnum.

Það er ekki oft sem féð er svona gæft, yfirleitt hleypur það frá manni – en heimalningarnir laðast að mönnum eins og þeir laðast að mömmu sinni.“

Mjólkursopinn er góður.

Hversu mikil vinna er að vera með svona heimalning?

„Það þarf að gefa honum að borða á hverjum degi af því að hann hefur enga mömmu. Þannig að það þarf að hita vatn og blanda fyrir hann mjólk. Fyrst til að byrja með gaf ég honum pela og útbjó síðan gjafafötu með túttu, þegar hann var farinn að drekka meira þá dugði pelinn stutt.

Hinn heimalningurinn sem ég var með var orðinn mjög illa haldinn og vill ekki sjúga. Þá þarf ég að gefa honum með sprautu. Svo kemur í ljós hvort hann braggast nógu vel til að taka túttu, þá minnkar vinnan aðeins. Hann gat ekki staðið fyrst þegar hann kom hingað en er aðeins að koma til núna.

Jón hrútur hefur braggast mjög vel og það er mjög líklegt að hann fái að vera áfram, það kemur í ljós í lambadómi í haust hvort hann verði notaður. Ég lét hrútinn frá mér í vor og það kemur þá í ljós hvort þessi fái að sinna konunum hér – enda ótengdur.“

Það er enginn ágreiningur hérna á milli dýra. Þau eru bara öll í sátt og samlyndi.

„Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir eins og einhver sagði – og þannig er það að mestu hérna á bænum,“ sagði Aron að lokum.


Heimasætan sér um að týna eggin

Sigurður og Díana með Myrkva og Oreo í fanginu.

Börn Arons, þau Sigurður og Díana, eru hin ánægðustu innan um dýrin í sveitinni og þeim þykir afskaplega vænt um dýrin sín.

„Það er rosalega gaman að hjálpa til með dýrin,“ segir Sigurður sem er að verða tíu ára.

„Mér finnst gaman að gefa lömbunum að drekka,“ segir Díana sem er tólf ára.

Þau halda á sitt hvorri kanínunni og við vildum fá að vita hvað þær heita.

„Þessi heitir Orio,“ segir Díana, „... og þessi heitir Myrkvi,“ bætir Sigurður við en nafngiftirnar hafa ekki verið að vefjast fyrir krökkunum því önnur kanínan er grá og svört og var því nefnd eftir Orio-kexköku. Myrkvi er hins vegar alsvört eins og nafnið gefur til kynna.

Finnst ykkur kanínur skemmtileg dýr?

„Já,“ segja þau í kór. „Bara gaman að leika með þeim.“

Ef þið ættuð að velja, hvað er uppáhaldsdýrið ykkar?

Þau hugsa sig vandlega um og Díana segir: „Kanínur og lömb.“ Sigurður samsinnir því og bætir við: „Bara öll dýr.“

Eruð þið dugleg að hjálpa til á bænum, týna eggin og svona?

„Alltaf þegar ég er hérna í sveitinni þá fer ég og týni eggin,“ segir Díana. „Stundum geri ég morgunmat úr þeim, stundum hádegismat líka.“

Kötturinn á bænum sér um að halda músunum í skefjum.

Í spilaranum hér að neðan er viðtalið við Aron og þá má sjá fjölmargar skemmtilegar myndir Hilmars Braga Bárðarsonar, ljósmyndara Víkurfrétta, í myndasafni neðst á síðunni.

Frístundabúskapur á Nýlendu júní 2023