JÓN GUNNARSSON ÞÁTTAKANDI Í PRÓFKJÖRI SAMFYLKINGARINNAR
Jón Gunnarsson, þátttakandi í prófkjöri samfylkingarinnar:Hvernig stendur ReykjaneskjördæmiÞegar staða Reykjaneskjördæmis er skoðuð í samanburði við önnur kjördæmi á Íslandi þá kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Þetta næstfjölmennasta kjördæmi landsins virðist engan vegin koma ár sinni eins vel fyrir borð og önnur kjördæmi og það eru mýmörg dæmi sem sanna það.Það er ótrúlegt að fulltrúar okkar á Alþingi hafi ekki staðið fyrir háværum mótmælum innan sinna flokka vegna þess misræmis sem verið hefur á atkvæðavægi kjósanda í kjördæmimu miðað við hin landsbyggðarkjördæmin. Það getur verið að einhver segi að þetta skipti ákaflega litlu máli, en eftir að hafa starfað sem sveitarstjórnarmaður hér á svæðinu undanfarin 12 ár þá er alveg ljóst í mínum huga að vegur þessa kjördæmis gæti verið allur annar en hann er í dag. það er nánast sama hvaða málaflokkur er skoðaður, Reykjaneskjördæmi stendur illa í flestum þeim málaflokkum sem Alþingi hefur með að gera.Samgöngumál.Framlög ríkisins til vegamála í Reykjaneskjördæmi eru skammarlega lítil þegar þau eru borin saman við önnur kjördæmi. Eðlilegar og sjálfsagðar framkvæmdir eins og tvöföldun Reykjanesbrautar eru aftur og aftur kosningaloforð þingmanna fyrir alþingiskosningar en ekkert gerist. Mér er til efs að samgönguæð annarsstaðar á landinu með sama umferðarþunga og jafnmikilli slysatíðni væri lengi í því ástandi sem brautin er áður en þingmenn þeirra kjördæma gripu í taumana og tryggðu eðlilegar endurbætur. Suðurstrandarvegur milli Grindavíkur og Þorlákshafnar er annað dæmi um langþráðan draum í vegamálum kjördæmisins. Ef tillögur að breyttri kjördæmaskipan verða samþykktar og Suðurland og Suðurnes verða sama kjördæmið árið 2003, þá er alveg nauðsynlegt að þessi tvö svæði verði tengd með þeirri beinu tengingu sem Suðurstrandarvegur er. Það hlýtur að vera krafa íbúa í Reykjaneskjördæmi að í samgöngumálum komi efndir og athafnir í stað loforða.HeilbrigðismálNokkuð hefur verið ritað um stöðu heilbrigðismála á þessu svæði. Allir þekkja þá miklu varnarbaráttu sem í gangi hefur verið við að viðhalda þjónustustigi heilbrigðisstofnana í kjördæminu. Það var erfitt hlutverk að sitja í stjórn Heilsugæslu og Sjúkrahúss Suðurnesja, sem nú hefur verið sameinað í eina stofnun undir nafni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og horfa upp á það gengdarlausa misræmi sem var á fjárveitingum hingað í samanburði við aðrar stofnanir á landsbyggðinni. Allir muna stríðið við að fá ríkisvaldið til að standa við loforð sín um byggingu D-álmu við sjúkrahúsið sem að endingu vannst fyrir samstöðu íbúa og sveitarstjórnanna á Suðurnesjum. Stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur í gegnum tíðina talað fyrir daufum eyrum ríkisvaldsins þegar knúð var á um leiðréttingar á rekstrargrunni og aflleysi þingmanna var hrópandi.Málefni fatlaðra.Eins og flestum er kunnugt þá hefur verið í umræðunni að sveitarfélög taki við málefnum fatlaðra frá ríkinu. Í framhaldi af þessu hefur verið gerð könnun á stöðu fatlaðra í kjördæminu og samanburður gerður við önnur kjördæmi. Í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum sem ríkið hefur séð um er niðurstaðan sláandi. Ríkisvaldið hefur á engan hátt staðið undir þeim skyldum sem lög um málefni fatlaðra leggur því á herðar. Mörghundruð milljónir vantar upp á bæði til rekstrar og fjárfestinga til að skyldur samkvæmt lögunum séu uppfylltar. Reykjaneskjördæmi stendur alveg skelfilega illa í samanburði við önnur kjördæmi í þesum málaflokki sem og í mörgum öðrum.Þessu þarf að breyta.Það er ekkert náttúrulögmál að Reykjaneskjördæmi skuli koma jafnilla útúr samanburði við önnur kjördæmi og raun ber vitni. Það hljóta að vera á þessu einhverjar aðrar skýringar. Það er vitað, að á Alþingi fer fram mikil hagsmunagæsla þingmanna fyrir kjördæmi sín, við getum verið ósátt við þetta kjördæmapot eins og það hefur verið kallað en það er deginum ljósara að ef okkar þingmenn beita ekki sömu aðferðum og þingmenn annarra kjördæma þá munum við bera skarðan hlut frá borði. Það hefur einnig komið í ljós á undanförnum misserum að það virðist miklu skipta, að kjördæmi hafi ráðherra í ríkisstjórn til að tryggja hagsmuni sína. Höfundur er þátttakandi í prófkjöri samfylkingar sem fram fer 5-6 febrúar nk.