Jón Guðlaugsson sjötugur
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, fagnaði sjötugsafmæli 9. desember og bauð til veislu í húsakynnum Réttarins í Reykjanesbæ. Fjöldi ættingja, vina og samstarfsmanna samfögnuðu Jóni sem lætur vel að sér á þessum stóru tímamótum.
Jón byrjaði í slökkviliðinu árið 1974 og vantar því aðeins tvö ár upp á að fylla áratugina fimm. Friðjón Einarsson, stjórnarformaður Brunavarna, færði Jóni gjöf frá stofuninni auk 250 þúsund króna til Velferðarsjóðs Suðurnesja frá starfsmönnum hennar en afmælisbarnið hafði afþakkað gjafir á afmælinu.
Páll Ketilsson heilsaði upp á afmælisbarnið og smellti nokkrum myndum í leiðinni sem má sjá hér og í myndasafni með fréttinni.
Friðjón Einarsson, formaður stjórnar, þakkaði afmælisbarninu frábær störf og sagði að slökkviðliðsstjórinn hefði verið beðinn um að hætta ekki alveg strax en Jón hóf störf í slökkviliðinu fyrir 48 árum. Þetta ár var stórt hjá kappanum því Brunavarnir Suðurnesja opnuðu formlega nýja slökkvistöð í upphafi árs.
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, og Gísli Jóhannsson í Húsasmiðjunni sungu lagið „Traustur vinur“ sem var „óður“ til afmælisbarnsins.