Jólin tvisvar á ári
Ungir Suðurnesjabúar segja frá sínum jólahefðum
Jólahefðirnar eru æði misjafnar hér á landi. Fólk sem hefur flust hingað erlendis frá kemur með sínar eigin hefðir og fagnar jólunum með ýmsum hætti. Víkurfréttir heyrðu í ungu fólki á Suðurnesjum sem heldur upp á jól með aðeins öðruvísi sniði.
Ljiridona Osmani er 18 ára stelpa sem býr í Keflavík. Hún fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Íslands árið 2002 frá Kosovo, en þau voru flóttafólk. Ljiridona er múslimi líkt og aðrir í hennar fjölskyldu. Þau fagna ekki jólum eins og flestir Íslendingar. Múslimar frá Kososvo halda hátíð sem kallast Bajram tvisvar á ári. Hátíðina ber ekki alltaf upp á sömu dagsetningu en þá skiptast ættingjar á stórum gjöfum líkt og við gerum á jólum.
„Aðfangadagur og jóladagur eru bara venjulegir dagar hjá okkur. En annars gerum við ekkert merkilegt, bara svona til þess að reyna að vera með þá gefum við gjafir og svoleiðis en annars er engin matur og ekkert sérstakt sem við gerum. Þegar það er Bajram þá er fastað í 30 daga. Það virkar bara þannig að það er settur ákveðinn tími þegar maður má ekki borða, eftir klukkan þrjú að nóttu til fram að níu um kvöldið. Það kemur alltaf svona dagatal inná netið sem maður fer eftir og þar getur maður séð hvenær maður má borða og svoleiðis.“
Ljiridona segir að þó svo að flestir vinir hennar haldi jólin hátíðleg þá finnist henni það ekkert erfitt. „Mér finnst þetta ekkert erfitt þar sem ég er vön að halda engin jól.“ Hún segir að síðan fjölskyldan kom til landsins hafi þeim verið tekið mjög vel af Íslendingum. Hún hefur alls ekki fundið fyrir fordómum vegna þess að hún sé múslimi „Margir hjálpuðu okkur og ég er bara rosa þakklát að búa hér og hvað Íslendingar tóku vel á móti mér og fjölskyldunni minni,“ segir hún. Jólaundirbúningur Íslendinga verður ekki mikið á vegi hennar en þó eru einhverjar íslenskar hefðir sem hún kann vel við.
„Það er ekkert mikið af jólalögum hérna heima en maður kann þó nokkur jólalög eftir öll þessi litlujól í skólanum. Við borðum dálítið mikið af hangikjötinu en finnst skatan nú ekkert góð,“ segir hún að lokum.