Jólin koma ekki án rjúpulyktar
Hanna Björg Konráðsdóttir reynir að vera praktísk í jólagjafainnkaupum en endar alltaf á því að kaupa þær síðustu á Hafnargötunni í Keflavík á Þorláksmessu. Hún er með fastar hefðir í jólamánuðinum, misdugleg að baka en er mikil rjúpukona. Samdi Baggalútur rjúpulagið um lögfræðinginn hjá Orkustofnun?
Nafn og starf/staða:
Hanna Björg Konráðsdóttir, lögfæðingur í raforkueftirliti Orkustofnunar.
Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?
Ég reyni nú yfirleitt að byrja eins snemma og ég get, safna því sem ég veit að fjölskyldumeðlimi vantar yfir árið og reyni að vera praktísk. Ég keypti eitthvað á netinu á Black Friday en ég hef ekki alveg komist upp á lagið með þennan singles day. Síðan keypti ég eitthvað erlendis í haust en svo eru alltaf nokkrar gjafir sem fá að bíða fram á Þorláksmessu og ég versla þær í Keflavík. Mér finnst dásamlegt að labba Hafnargötu á Þorláksmessu. Þetta er semsagt mjög skipulögð óreiða hjá mér.
Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?
Nei alls ekki, í fyrra var ég komin mun fyrr í ágætis jólaskap og skreytti snemma í desember. Þetta er í seinna lagi hjá mér í ár.
Skreytir þú heimilið mikið?
Ég skreyti það fullkomlega mátulega eins og tími gefst til. Desember er mjög annasamur tími í vinnunni og jólaseríur hafa ekki verið í forgangi til að mynda en ég skreyti frekar mátulega inni svo allir komist nú í jólaskap. Annars finnst mér einfaldar skreytingar fallegastar, greni, könglar og hnotubrjótar svo skreytingarnar mínar eru nú frekar einfaldar.
Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst? Áttu þér uppáhaldssmáköku.
Í fyrra náði èg að baka mikið, held ég hafi náð að baka 8 eða 9 sortir. Í ár hef ég ekki bakað nema eina, og ég á ekki von á því að ná að baka mikið meira. Næstu helgi er Bikarkeppnin í sundi og öll helgin fer í það og tónlistarnám hjá eldri dótturinni svo að ég býst fastlega við að ég endi með restar af Ikea smákökunum. Ég er búin að baka sörurnar sem eru í forgangi enda nauðsynlegt með kaffinu þegar gjafirnar eru opnaðar. Allt annað er aukaatriði. Ég held samt mikið upp á súkkulaði og möndlukökur frá mömmu sem kallast þríhyrningakökurnar. Hrikalega einföld og góð uppskrift.
Eru fastar jólahefðir hjá þér?
Hrikalega, jólin koma ekki nema ég fái grafinn villtan lax, rjúpur og komist í messu. Ég er blessunarlega svo vel gift að manninum mínum leiðist ekkert að ná í rjúpur fyrir mig. Ég held að Baggalútur hafi samið jólalagið, Rjúpur, um mig. Jólin koma ekki án rjúpnalyktar hvað sem fólki finnst um slíka þrjósku. Í ár er ég samt frekar stolt af því að laxinn í forrétt er veiddur af mér. Ég hef fengið foreldra mína og tengdaforeldra í mat á aðfangadag og það er notalegt. Á jóladag höfum við mjög oft farið í brunch til mömmu og þá er jólagrauturinn og borinn fram ásamt öðru dásamlegu góðmeti. Aðrar hefðir eru breytilegar.
Hvernig er aðventan - hefðir þar?
Nei engar fastar hefðir þar en við reynum að gera eins notalegar stundir og við getum með stelpunum okkar á milli jólatónleika og sundmóta.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu skemmtilega jólaminningu?
Ég get ekki sagt að ég muni eftir einni ákveðinni jólaminningu úr barnæsku en jólin voru bara alltaf dásamlegur tími með fjölskyldunni. Mamma sá um að gera allt notalegt en oft var stressið ansi mikið. Hún sett mjög háan standard fyrir mig, ég þarf stundum að segja sjálfri mér hvað er mikilvægast í undirbúningnum og forgangsraða því sem skiptir máli. Það er svo auðvelt að ætla sér um of, við þurfum alltaf að finna rétta milliveginn í amstri dagsins. Ég verð einhvern tímann orðin hrikalega góð í því.