Jólin koma bara
Bjarni Geir Bjarnason saknar þess að hafa ekki haldið í þann sið að fjölskyldan kæmi saman til að gera laufabrauð. VF lagði spurningar fyrir Bjarna:
Jólabíómyndin sem kemur þér í jólaskap? Jólabíómyndin sem kemur mér alltaf í jólaskap er náttúrlega Christmas Vacation með Chevy Chase, ég get alltaf hlegið af henni.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir? Varðandi jólakort þá er Facebook vinsælt hjá okkur.
Ertu vanafastur um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar? Nei, ekkert spes jólin koma bara.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Erfitt að svara þessari spurningu.
Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum? Já í mínum foreldrahúsum var alltaf komið saman öll fjölskyldan og búið til laufabrauð. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess mikið að við skyldum ekki hafa haldið í þann sið.
Hvað er í matinn á aðfangadag? Frá því að ég man, þá er alltaf hamborgarhryggur og við breytum því ekki héðan af.
Hvenær finnst þér jólin vera komin? Þegar ég sest niður með fjölskyldunni klukkan sex á aðfangadag, það eru jólin hjá mér.
Hefur þú verið eða gætirðu hugsað þér að vera erlendis um jólin? Nei, að vera í burtu frá barnabörnunum mínum er bara ekki í boði á þessum tíma.
Áttu þér uppáhaldsjólaskraut? Já, það er gömul jólalest sem ég held mikið upp á sem að vísu bilaði en hann Brynjar Níelsson rafvirki tók að sér að laga hana og þvílíkur snillingur þessi drengur að nostra svona við að koma öllum ljósum í lag á lestinni, honum verður seint þakkað fyrir það.
Hvernig verð þú jóladegi? 25. desember verð ég að túra um landið með hóp svo þetta verða stutt jól í ár hjá mér.