Jólin í Póllandi
„Alltof mikið af jólagjöfum á Íslandi,“ segir Aneta Grabowska
Aneta Grabowska er vinsæll Zumbakennari á Suðurnesjum en hún er fædd árið 1983 og flutti til Íslands fyrir tíu árum. Hún kom þá hingað fyrst í sumarfrí og kynntist íslenskum eiginmanni sínum, Helga Steinarssyni, og eiga þau saman einn son en fyrir átti Aneta eina dóttur sem nú er fimmtán ára.
Aneta Grabowska hefur verið í líkamsrækt síðan hún man eftir sér. Hún byrjaði á að kenna þolfimi hér og Tapata en svo fannst henni Zumba svo skemmtilegt að hún ákvað að fá sér Zumbadanskennararéttindi í Englandi. Í dag er Zumbakennsla aðalstarfið hennar.
Alltof mikið af jólagjöfum á Íslandi
„Ég kom hingað í sumarfrí og fannst Ísland svo fallegt land. Ég kynntist manninum mínum sem er íslenskur og ég hef kynnst íslenskum jólum en í ár ætlum við í fyrsta sinn að vera í Póllandi yfir jól með mömmu minni og móðursystur. Það verður gaman að fara þangað með fjölskylduna mína. Jólin í Póllandi ganga ekki svona mikið út á gjafir eins og hér á Íslandi. Mér finnst fólk kaupa allt of mikið fyrir jól, finnst þér það ekki líka?“ spyr hún blaðakonu sem verður kjaftstopp því henni finnst svo gaman að gleðja marga á jólum með jólagjöfum.
Segir samlöndum að læra íslensku
Aneta talar nokkuð góða íslensku og segir nauðsynlegt að læra íslensku fyrir þá sem vilja búa á Íslandi, annars verður maður alltaf eins og gestur í landinu.
„Ég lærði að tala íslensku og á eftir að læra meira í málfræði svo ég tali vel. Ég er alltaf að segja það við Pólverja, sem ætla að búa á Íslandi, að þau verði að læra að tala íslensku því þá gengur allt miklu betur, maður fær betri vinnu og betra að ná sambandi við Íslendinga. Annars verður maður alltaf gestur hér. Ég á íslenskan mann og margar íslenskar vinkonur, börnin mín tala íslensku og líka pólsku og ensku. Ég er farin að hugsa á íslensku því ég er svo mikið með Íslendingum og kenni Íslendingum Zumba. Nauðsynlegt að kunna að tala íslensku,“ segir Aneta með áherslu. Næst spinnast umræður um íslenska málfræði sem hægt er að þjálfa sig betur í með lestri íslenskra bóka. Aneta segist ætla að skoða það.
Hvaðan ertu í Póllandi?
„Við áttum heima 200 km frá Gdansk, í litlum bæ eins og Reykjanesbæ. Við erum þrjár systurnar. Mamma mín var húsmóðir og pabbi trésmiður þegar ég var að alast upp. Í dag eru mamma mín og systir flutt í Reykjanesbæ og það er voða gott að hafa hluta af fjölskyldunni hér hjá mér en foreldrar mínir skildu fyrir nokkrum árum. Við förum oft í heimsókn til Póllands en ég hef ekki farið á jólum síðan ég flutti hingað,“ segir Aneta greinilega spennt fyrir ferðalaginu heim í gamla landið sitt um jólin.
Hvernig halda Pólverjar jól?
„Við erum kaþólsk og mér finnst gott að fara í kirkju til að hugsa og eiga kyrrðarstund. Það er hefð á aðfangadag í Póllandi að við borðum ekkert kjöt fyrir miðnætti en þá förum við í kirkju og svo þegar við komum heim er vín og kjöt á veisluborðinu. Annars er margra daga undirbúningur fyrir matinn á aðfangadag, 24. desember. Við systurnar hjálpuðum mömmu í eldhúsinu og ein okkar fór með pabba út í skóg að höggva tré sem við skreyttum heima í stofu. Það eru útbúnir tólf hefðbundnir réttir, allt grænmeti eða fiskur, rauðrófusúpa, súrkál og dumplings, sem er eins og fyllt pasta. Það eru líka alls konar kökur og múss. Sett eru allskonar poppífræ í kökur. Mest áríðandi er lítil athöfn á aðfangadag, áður en við borðum saman kvöldmat, en þá stendur sá elsti upp við borðið, pabbi heima hjá okkur, og gefur öllum bita af einu brauði, nokkurs konar oblátu eins og í altarisgöngu. Mamma fékk helminginn en við fengum bita og svo óskum við okkur inn í næsta ár, það sem við viljum láta rætast. Eftir kvöldmat eru jólagjafir opnaðar en pakkarnir undir jólatrénu eru allir merktir frá jólasveininum, sem er í rauðum fötum eins og ameríski Coca Cola-jólasveinninn. Við veisluborðið á aðfangadag er hafður einn aukadiskur og aukastóll fyrir einhvern sem á bágt, einhvern heimilislausan sem fær hvergi að borða þetta kvöld. Þetta er táknrænn aukadiskur. Jólin hjá okkur er meira um tilfinningar og gleði en páskar eru þó miklu stærri hátíð hjá kaþólikkum,“ segir hún.
Hvað finnst þér um íslensk jól?
„Mér finnst miklu léttara jólahaldið hér á Íslandi vegna þess að þið eruð yfirleitt bara með þriggja rétta máltíð. Það er létt að útbúa svona fáa rétti. Við erum með kalkún á aðfangadag heima hjá okkur og svo er ég með marengstertu og franska súkkulaðitertu í eftirrétt. Ég borða hangikjöt og allt íslenskt en ekki skötu og slátur, það borða ég ekki. Ég borða heldur ekki pulsur,“ segir hún og bætir við þegar rætt er um hvernig Íslendingar halda jól:
„Mér finnst gaman að gefa en mig vantar ekki fleiri hluti. Jólin á Íslandi snúast of mikið, finnst mér, um dýrar gjafir, tölvur og síma og svona. Mér finnst það óþarfi. Okkur vantar ekki fleiri hluti, við eigum frekar að muna eftir þeim sem eru einmana á jólum og þurfa félagsskap á aðfangadag. Þau eiga ekki að vera ein á jólum. Mér finnst íslensk jól frábær, mikil gleði. Þó að mér finnist lífið rólegt og gott vanalega á Íslandi þá eru jólin dálítið brjáluð vegna gjafanna sem fólk er að kaupa til klukkan ellefu á Þorláksmessukvöld. Þetta skapar bara stress. Það eru skemmtilegar jólasögurnar í kringum íslensk jól eins og Grýla og Leppalúði og þrettán jólasveinar. Sagan í kringum jólaköttinn er líka sniðug. Jólasveinninn minn gefur einfaldar gjafir, má ekki vera of dýrt, það má til dæmis gefa mandarínu. Heima hjá okkur á aðfangadagskvöld, eftir að við erum búin að borða saman, þá setjast allir við jólatréð og einn pakki er opnaður í einu. Á meðan bíða hinir og fylgjast með. Mig langar að óska öllum gleðilegra jóla og bið fólk að hugsa vel um líkama sinn á næsta ári og alltaf, því líkaminn þarf að endast okkur alla ævi.“
Aneta gefur lesendum uppskrift að frönsku súkkulaðikökunni sem hún er með á aðfangadag.
Frönsk súkkulaðikaka með karamellukremi
Botn:
200 g sykur
4 egg
200 g suðusúkkulaði
200 g smjör
1 dl hveiti
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C (blástur).
Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós.
Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita.
Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin.
Smyrjið bökunarfom eða setjið (eins og mér þykir best) bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið.
Bakið kökuna í 30 mínútur.
Karamellukrem
150 g suðusúkkulaði
70 g smjör
2–3 msk síróp
Aðferð – krem:
Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna þegar hún hefur kólnað.