Jólin hefjast þegar Jesúbarnið er komið í jötuna
Reykjanesbær er fjölmenningarsamfélag þar sem ólíkar hefðir koma saman en Víkurfréttir fengu að skyggnast inn í líf þriggja fjölskyldna af ólíkum uppruna og spyrja þær hvernig jólahaldi sé háttað á þeirra heimili. Þá var rætt við pólska fjölskyldu um pólska jólahefð og tvær aðrar sem samanstanda af hjónum af ólíkum uppruna. Annars vegar er um að ræða spænskumælandi fjölskyldu, hjón með tvö börn, en eiginkonan er frá Kólumbíu og eiginmaðurinn frá Kosta Ríka. Hins vegar eru hjón með þrjú börn, kona sem er uppalin í Úrúgvæ og íslenskur eiginmaður hennar. Fjölskyldurnar þrjár búa allar á Reykjanesi.
Hjónin Daniel Calderón Dotti og Maria K. Idarraga Calderón eru spænskumælandi og búa á Ásbrú í Reykjanesbæ ásamt börnum sínum tveimur Mattiasi og Emmu. Daniel er frá Kosta Ríka og hefur búið á Íslandi í fimm ár en Maria sem er kólumbísk hefur búið þar í tólf ár. Í heimalandinu ólst Maria ekki upp við að jólin væru haldin hátíðleg, þ.e.a.s. ekki á heimili hennar, en Daniel, sem er kaþólskur, er jólabarnið í fjölskyldunni. Fjölskyldan fagnar því jólunum í megindráttum að sið Kosta Ríkabúa með ívafi af íslenskri, kólumbískri, spænskri og amerískri hefð. „Þessi mánuður er frekar sturlaður,“ segir Daniel. „Í desember fá allir í Kosta Ríka borgað orlof, ekki í maí eins og hér, og eiga því meiri pening. Það er partý allan mánuðinn. Þetta er mjög svipað og á Íslandi. Það er skreytt með jólaljósum og jólatrjám og einhverjar fjölskyldur fræða börn sín um jólasveininn.“
Það sem er hinsvegar sérstætt við menninguna er eins konar helgileikur þar sem jólanóttin er sviðsett. Þá klæða börnin sig upp í líki Maríu og Jósefs, ganga á milli húsa, knýja á dyr og biðja leyfis að fá að koma inn fyrir. Þau syngja tiltekna söngva en inntak texta er það að María sé ófrísk og að hjónin þarfnist gistingar því frelsarinn muni brátt fæðast. „Jósef og María eru úti en fleiri börn og heimilisfólkið er inni,“ segir Daniel. Þau sem bíða inni svara bón Jósefs og Maríu, hleypa þeim að lokum inn og því næst syngja allir saman og fá sér eitthvað góðgæti. „Þetta byrjar 1. desember og er til 23. desember.“ „Kaþólikkar í Kólumbíu gera svipað en þar er mjög ströng trú,“ segir Maria. Þá er farið með bænir, sungnir eru sálmar og öllu alvarlegri bragur er yfir hefðinni.
Á flestum heimilum í Kosta Ríka má einnig finna einskonar líkneski af Betlehemsfjárhúsinu, því sem Jesúbarnið fæddist í. Innan þess eru geymdar styttur af Jósef, Maríu, vitringunum, fjárhirðunum, nokkrum dýrum og Jesúbarninu í jötunni. „Það kallast portal,“ segir Daniel um líkneskin en þau eru jafnan úr keramiki og „eru geymd í stofunni.“ „Það er kannski 80% af fólki í Kosta Ríka sem gera þetta,“ segir Maria. „Þá setja þau Jesúbarnið þarna,“ í jötuna. „Allan mánuðinn eru María og Jósef í fjárhúsinu en ekki barnið“ sem er aldrei sett í jötuna fyrr en eftir miðnætti á aðfangadagskvöld sem táknmynd þess að Jesús fæddist á jóladag. Margir hinna heittrúuðustu fara með þessi líkneski til kirkju og fá prestinn til að blessa þau en hefðin segir að eigandi líkneskisins verði að fá það að gjöf og megi ekki kaupa sér það sjálfur.
„Krakkarnir fara snemma að sofa á aðfangadagskvöld,“ segir Daniel „en fullorðna fólkið vakir og bíður eftir að börnin sofni. Þau drekka, borða og fara með gjafirnar fram í stofu. Krakkarnir vakna síðan klukkan 6-7 um morguninn og opna gjafirnar.“ Samkvæmt gömlu hefðinni er það ekki jólasveinninn sem færir börnunum gjafir heldur Jesúbarnið og því spyrja þau flest sín á milli: „Hvað gaf Jesús þér í jólagjöf?“ Í Kólumbíu fá börnin gjarnan gjafir um áramót og hafa Maria og Daniel haldið þeirri hefð en börn þeirra fá einnig gjafir á jóladag og ef til vill þetta árið skógjafir frá íslenska jólasveininum.
„Aðfangadagskvöld er svipað og hér,“ segir Daniel. „Við borðum um kvöldið, öll fjölskyldan hittist og vinir líka. Hér er þetta rólegt en í heimalandinu mínu er svaka partý. Það eru ömmur, afar, frænkur, frændur, allir.“ Það er heilmikið eldað og matast og „fyrir mat fara allir í kirkju. Það er hægt að fara á miðnætti eða fyrir mat en fjölskyldan mín fer alltaf fyrir mat,“ segir Daniel.
Hinn hefðbundni hátíðarmatur í Kosta Ríka kallast „Tamal“ en það er innbakaður réttur úr svínakjöti, kartöflum, grænum baunum og hrísgrjónum. Deigið utan um réttinn er úr maísmjöli en þessu er síðan pakkað inn í bananalauf og það er gufusoðið í umbúðunum. „Það er bara borðað í desember,“ segir Daniel og Maria bætir við að í Kólumbíu sé rétturinn líka útbúinn nema að þar sé innihaldið gjarnan svínakjöt, lambakjöt og kjúklingur. Aðrir réttir eru mismunandi eftir fjölskyldum en í fjölskyldu Daniels eru jafnan svínalæri, salat, hrísgrjón, baunir og ávextir á boðstólum ásamt gosi, jólaglögg og smákökum. Á þessum árstíma er afar heitt í Kosta Ríka og er þá stundum grillað úti.
Að jólahaldi loknu er líkneskið af Betlehemsfjósinu tekið niður en það er gert með sérstakri athöfn. Þá hittist stórfjölskyldan á heimili hvers og eins og biður fyrir því en til þess er notað sérstakt perluhálsmen með áföstum krossi. „Það eru 130 stykki á hálsmeninu og það verður að biðja 130 sinnum,“ segir Maria. „Þegar þetta er búið er aftur partý,“ segir Daniel en jólakveðjan „Feliz Navidad,“ ásamt samnefndu lagi eftir José Feliciano á vel við um hátíðarhöldin í desember að hætti Kosta Ríkabúa.