Jólin byrja strax eftir verslunarmannahelgi
Jólin mín - Atli Sigurður Kristjánsson
Atli Sigurður Kristjánsson er mikið jólabarn. Hann á það til að halda fast í hefðir. Þannig þykir honum notalegt að hitta fjölskylduna og horfa á myndir á Þorláksmessu eins sem hann telur að jólakortagerð sé nauðsynlegur hluti af jólunum.
Hvaða jólamynd kemur þér í jólaskapið?
Þetta er erfið spurning, en ég verð að segja It's a wonderful life. Sá hana ekki alls fyrir löngu og hún er afskaplega falleg. Home Alone er svo nauðsynlegur partur af jólunum.
Sendir þú jólakort eða hefur facebook tekið yfir?
Að skrifa jólakort er nauðsynlegur partur af jólum, sjálfur er ég ekki byrjaður en það er eitthvað töfrandi við það að setjast við skriftir og hlýða á fallega jólasöngva, svo má ekki gleyma að brenna smá greni með. Að því sögðu, mun ég aldrei notast við Facebook til að senda jólakveðjur, skemmtilegra er að gefa sér tíma til að gera þetta aðeins persónulegra.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Ég á það alveg til að halda í sumar hefðir, en dæmi um það er að mér finnst nauðsynlegt að horfa á jólamyndir og hitta fjölskylduna á Þorláksmessu. Svo er bráðnauðsynslegt að grípa í gítarinn og syngja jólalög með fjölskyldunni.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég á margar eftirminnilegar en sú minning sem er mér nærst er þegar ég var 5 ára, þá fengum ég og Ívar, tvíburabróðir minn, bílabraut í jólagjöf frá Mömmu og Pabba. Að auki var okkur boðið að vaka lengur til að leika okkur með bílabrautina, þannig við drifum okkur í náttfötin og hlupum niður til að hjálpa Pabba að setja brautina saman. Það var því ansi erfitt að koma okkur í svefn þetta kvöld.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Það er ávallt hamborgarhryggur í matinn, ásamt sykurbrúnuðum kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og að ógleymdri sveppasósunni a la mamma sem fullkomnar diskinn.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Fljótlega eftir verslunarmannahelgi þá er nauðsynlegt að fara að huga að jólum!
Hefur þú verið eða gætir þú verið hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Ég hef aldrei verið erlendis um jólin sjálf en áramótin hef ég þó upplifað erlendis. En ég gæti vel eytt jólunum erlendis ef ég væri umkringdur fjölskyldunni. En að eyða jólunum einn í útlöndunum hljómar ekki vel og því gæti ég nú ekki hugsað mér það.
Hvernig brástu við þegar þú komst að leyndarmálinu um jólasveininn?
Á mínu heimili var oft mikil spenna vegna jólasveinsins og því lítið um svefn. Stundum var stofan í rústi, skítug spor og annað slíkt eftir heimsókn sveinanna. En í Myllubakkaskóla 1997, var mikil umræða komin í gang um tilveru þeirra og ég átti því erfitt með að kyngja því, enda voru sönnunargögnin á heimilinu augljós. Fljótlega var ég farinn að telja mandarínurnar kvöldið fyrir svefn og svo aftur um morguninn til að athuga hvort einhver „tilfærsla“ hafi orðið. Svo var auðvitað, en að sjálfsögðu lét ég sem ég vissi ekki neitt og fékk áfram þessar dýrindis mandarínur í sokkinn við arininn.
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Nei, get ekki sagt það. En þar sem afi minn var garðyrkjubóndi og var með blómabílinn við Stapann á sínum tíma, sem móðir mín og bróðir seinna tóku við, þá þykir mér ávallt vænt um að hafa jólastjörnu heima.
Hvernig verð þú jóladegi?
Frá unga aldri hefur jóladagur litast af jólaboðum og því er engin breyting á. Á þessu ári er byrjað á því að fara í jólaboð hjá bróðir pabba, en þeir skiptast á að halda boðin, pabbi og bróðir hans. Eftir það er boð hjá tengdafjölskyldunni, eitt að degi svo annað að kveldi. Sem mikill fjölskyldumaður þá þykir mér ekki leiðinlegt að eyða jóladeginum í faðmi fjölskyldunnar.