Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Jólatrésskemmtun í Bryggjuhúsinu á sunnudag
Föstudagur 7. desember 2018 kl. 10:11

Jólatrésskemmtun í Bryggjuhúsinu á sunnudag

Jólatrésskemmtun í Bryggjuhúsi
 
„Ég ætla að muna eftir ykkur á jólunum,“ með þessum orðum kvaddi kaupmannsfrúin Ása Olavsen börnin í Keflavík sem hún hafði boðið til sín í veislu, í fínasta hús bæjarins Fischershús, einn fagran sumardag í kringum aldamótin 1900. Frú Ása var eiginkona Ólafs Olavsens forstjóra og meðeiganda Duusverslunar. Og frú Ása stóð við sitt. Upp frá þessu stóð Duusverslunin fyrir glæsilegum jólatrésskemmtunum í Bryggjuhúsinu um tuttugu ára skeið. Þar komu saman öll börn bæjarins og úr nágrannabyggðum, allt upp undir 300 börn og sáu þá mörg þeirra jólatré í fyrsta sinn. Skemmtunin hófst seinnipartinn og stóð fram undir miðnætti. Dansað var í kringum jólatréð, söngvar sungnir og veitingar reiddar fram. Um miðnættið tók fullorðna fólkið við og skemmti sér fram eftir nóttu. Ljóst er að þessar skemmtanir hafa verið mikil upplyfting á þeim tíma þegar Keflavík var aðeins fátækt þorp og fátt við að vera. Kannski hafa þær haft svipað gildi og Ljósanótt fyrir okkur í dag.
 

Gamaldags jólatrés­­skemmtun í Bryggjuhúsi
 

Nú lítum við um öxl og rifjum upp þennan 100 ára gamla merkilega viðburð með jólatrésskemmtun í Bryggjuhúsinu í anda gömlu skemmtananna. Frú Ása Olavsen tekur á móti börnunum eins og forðum og dansað verður í kringum jólatréð. Auðvitað mætir jólasveinn af gamla skólanum á svæðið. Við hvetjum fjölskyldur til að koma saman og njóta þess að líta til baka á gamlar hefðir og upplifa einfaldleika jólanna og hinn sanna jólaanda.
 
Allir eru hjartanlega velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.
 
Jólatrésskemmtunin fer fram sunnudaginn 9. desember og hefst stundvíslega kl. 14 og dagskrá verður lokið kl. 15.
 

Ratleikur og óskalistar til jólasveinanna
 

Á aðventunni stendur fjölskyldum einnig til boða að fara í ratleik í Bryggjuhúsinu og leita að gömlu jólasveinunum sem hafa falið sig hingað og þangað um húsið. Þá er hægt og biðja Skessuna í hellinum um að koma óskalista til jólasveinanna.
 
Nánari upplýsingar er að finna á reykjanesbaer.is

 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024