Jólatréð er alltaf skreytt á Þorláksmessu
Berglind Ægisdóttir er 20 ára og býr í Garðinum. Hún er á 1. ári í lyfjafræði við Háskóla Íslands en liggur núna flatmaga í jólafríinu að slappa af.
Fyrstu jólaminningarnar?
Þegar ég hugsa svona langt aftur man ég bara eftir að jólatréð var alltaf troðfullt af pökkum, sem mér leiddist alls ekki.
Jólahefðir hjá þér?
Held það séu bara þessar hefðbundnu jólahefðir. Jólatréð er alltaf skreytt á Þorláksmessu og á aðfangadag eru allir jólapakkar keyrðir út. Við höfum einnig alltaf möndlu í fjölskylduboðinu á jóladag.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
Nei, ekki yfir jólin. Foreldrarnir sjá um það hlutverk og maður reynir eftir bestu getu að vera ekki fyrir þeim.
Jólamyndin?
Christmas Vacation er alltaf klassísk.
Jólatónlistin?
Öll þessi gömlu góðu lög. Svo er diskurinn ‘’Jóla hvað?’’ með Ladda alltaf í miklu uppáhaldi.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Ég er léleg í þessum jólagjafakaupum og þræði allar búðir á Íslandi áður en ég finn eitthvað. En allar búðirnar í Kringlunni koma sterkar til leiks.
Gefurðu mikið að jólagjöfum?
Já, þessi fjölskylda fjölgar sér svo mikið að það er nóg að gefa um jólin.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Fékk einusinni karaoke tæki frá bandaríkjunum sem vakti mjög mikla lukku hjá mér. Ég veit samt ekki hvort að restin af fjölskyldunni hafi verið jafn ánægð með gólið.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Flakkara og síma.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Hamborgarhryggur og lambahryggur. Þetta er combo sem klikkar aldrei!