Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólatónlistin í miklu uppáhaldi
Sunnudagur 15. desember 2013 kl. 09:00

Jólatónlistin í miklu uppáhaldi

Njarðvíkingurinn Heiða Ingólfsdóttir segir okkur frá sínum jólahefðum.

Heiða Ingólfsdóttir er sérkennslustjóri á leiskólanum Holti, móðir fjögurra stráka og kemur sjálf úr hópi fimm systkina. Heiða er mikið jólabarn og veit fátt skemmtilegra en tíma aðventunnar. Hún segir það fyrst og fremst vera tíma barnanna og jólin eigi að vera þeim gleðileg og eftirminnileg.


Fyrstu jólaminningarnar?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þær eru af Hraunsveginum í Njarðvík þar sem ég ólst upp í stórum systkinahópi. Stofunni var lokað á aðfangadagsmorgun svo að allt væri eins fínt og flott og hægt var. Eldhúsborðið var fært inn í stofu og þar borðuðum við jólamatinn. Ég man líka eftir því hvað það var erfitt að bíða eftir því að mega opna pakkana. Pabbi þóttist þurfa að leggja sig eftir matinn og við systurnar drógum hann inn í stofu svo að hægt væri að opna pakkana.


Jólahefðir hjá þér?

Desember er eins og hjá svo mörgum mjög annasamur mánuður. Það er jólamatarklúbbur, jólagleði í vinnunni, jólahlaðborð og fleira en þegar jólin sjálf nálgast þá hafa þau verið í nokkuð föstum skorðum hjá okkur. Við hjónin höfum haldið okkar eigin jól frá því að elsti sonur okkar fæddist og fannst mikilvægt að skapa okkar eigin hefðir og venjur. Jólin byrja á skötuveislu hjá mömmu fyrir þá sem borða skötu. Það er vanalega eiginmaðurinn, mágur og bróðir sem borða hana en við hin forðumst lyktina og förum með pabba út að borða. Aðfangadagur er yndislegur. Þá fer fjölskyldan án mín á rúntinn með restina af jólakortunum og með pakka á nokkra staði. Þá stússast ég í eldhúsinu og undirbý hátíðina. Jóladagur hefur líka verið fjölskyldudagur. Þá eru jólaboð bæði í minni fjölskyldu og í tengdafjölskyldunni. Annar í jólum er rólegi dagurinn okkar. Þá höfum við oft humar eða eitthvað álíka í matinn og horfum á sjónvarpið, lesum og leikum og njótum þess að vera í jólafríi.


Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?

Jólin snúast mikið um mat þannig að ég held að ég sé nokkuð dugleg í eldhúsinu á þessum árstíma.


Jólamyndin?

The Holiday. Mér finnst hún voða skemmtileg. Mér finnst líka gaman að horfa á jólamyndir með strákunum og þá skiptir ekki öllu hvað horft er á.


Jólatónlistin?

Ég byrja snemma að hlusta á jólatónlist, laumast stundum til að hlusta aðeins í október. Ég hef mjög gaman af allri tónlist en jólatónlistin er í miklu uppáhaldi og þá er margt sem kemur upp í hugann. Ég hef hlustað mikið á Frostrósir og Josh Groban undanfarin jól en svo er Léttbylgjan líka frábær á þessum árstíma.


Hvar kaupirðu jólagjafirnar?

Mér finnst mikilvægt að versla í heimabyggð og reyni það eftir fremsta megni. Þetta haustið fór ég í ráðstefnuferð til Washington og keypti flestar gjafirnar þar en það sem eftir er verður að öllum líkindum keypt hér í Reykjanesbæ.


Gefurðu mikið af jólagjöfum?

Já, ætli þær séu ekki rúmlega tuttugu.


Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Ég sýð hangikjöt á Þorláksmessu þó ég borði ekki mikið af því sjálf, ætli það sé ekki lyktin sem ég sæki í. Jólasósan með jólasteikinni skiptir líka miklu máli í minni fjölskyldu. Ég á uppskrift að henni en hringi alltaf í mömmu til öryggis. Heimagerði jólaísinn er ómissandi. Svo hlusta ég á messu á Rás 1 klukkan 18 á aðfangadagskvöld og raula með. Þá er hátíðleiki jólanna í hámarki.


Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Ég veit ekki með bestu jólagjöfina en þær eru nokkrar eftirminnilegar. Gjafir sem strákarnir hafa gefið mér í gegnum tíðina standa upp úr og ég vil helst að þeir gefi mér eitthvað sem þeir hafa búið til sjálfir. Þær finnst mér vænst um. Svo finnst mér líka voða gaman að fá eitthvað frá manninum mínum sem hann velur sjálfur. Systir mín hefur svo oft gefið mér flottar gjafir. Við ákváðum fyrir mörgum árum síðan að gefa hvor annarri bara eitthvað fyrir okkur.


Hvað er í matinn á aðfangadag?

Ég held við höfum alltaf verið með hamborgarhrygg en þessi jól erum við að hugsa um að breyta til. Við ræddum þetta fjölskyldan en höfum ekki tekið ákvörðun um hvað verður. Það kemur margt til greina.


Eftirminnilegustu jólin?

Ætli það hafi ekki verið þau ár sem ég bjó í Bretlandi. Jólin voru svo ólík því sem ég átti að venjast. Það vantaði einhvern veginn allan hátíðleikann sem ég finn hjá okkur á Íslandi. Þá fann ég líka hvað mér finnst mikilvægt að halda jól með þeim sem standa mér næst.


Hvað langar þig í jólagjöf?

Ég veit það ekki. Jólin hafa alltaf snúist um börnin og að gera þeirra jól gleðileg og eftirminnileg. Mér finnst jólin vera þeirra hátíð, ef þau eru glöð og hamingjusöm þá er ég ánægð. Jólin snúast svo mikið um minningar úr æsku. Börn eiga að fá að vera börn og upplifa gleði og hamingju í faðmi fjölskyldunnar.