Jólatónleikar til heiðurs Maríu guðsmóður

Miðvikudagskvöldið 12. desember klukkan 20:00 lýkur Kvennakór Suðurnesja afmælisárinu með fallegum og hátíðlegum jólatónleikum undir yfirskriftinni Ave Maria líkt og árið 2015 en þá hélt kórinn einnig Ave Mariu tónleika í Keflavíkurkirkju sem var mjög vel tekið af áhorfendum. Á tónleikunum mun kórinn, ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum, flytja nokkrar af fallegustu tónlistarperlum sem samdar hafa verið um Maríu guðsmóður við hugljúfa stemningu og kertaljós. Einsöngvari verður Birta Rós Arnórsdóttir og hljóðfæraleikarar verða Geirþrúður F. Bogadóttir á píanó, Ragnheiður Eir Magnúsdóttir á þverflautu, Ína Dóra Hjálmarsdóttir á blokkflautu og félagar úr Bjöllukór Tónlistarskólans í Reykjanesbæ. Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir. 

Hvers vegna María mey?
Við litum inn á æfingu hjá kórnum í vikunni. Það var fagur kórsöngur kvenna sem tók á móti okkur en við tókum tali þær Guðrúnu Karitas Karlsdóttur formann kórsins og Aðalheiði Gunnarsdóttur, varaformann og spurðum þær hvers vegna kórinn hefði valið að syngja eingöngu þetta kvöld til heiðurs guðsmóðurinni.

„Við gerðum þetta árið 2015 og vakti mikla lukku. Það ár var 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og konur mikið í umræðunni. Við vorum efins áður en við héldum þá tónleika en svo þegar við sáum fjöldann sem kom og vildi hlusta á söngva tengda Maríu mey þá hefur það blundað í okkur að endurtaka leikinn. Hún virðist stundum gleymast í umræðunni um jól, konan sem færði okkur Jesú,“ segir Guðrún.

Tónlist sem snerti við manni
„Já það var full kirkja þá og við vonum að það gerist aftur núna. Efnisvalið á tónleikunum er svipað og 2015, sumt er þó ekki með núna en nýjar perlur teknar inn í staðinn. Það er svo falleg tónlist sem samin hefur verið um Maríu og við verðum hálfmeyrar þegar við syngjum um hana,“ segir Aðalheiður.

Við sem erum mæður tengjum vel við Maríu og þessi tónlist snertir við okkur. Þetta er svo hjartnæm tónlist sem bæði karlar og konur tengja við en þegar við vorum síðast með samskonar tónleika þá voru karlar einnig fjölmennir. Miðasala gengur mjög vel þetta árið einnig og við hvetjum fólk sem langar að koma að hafa samband við okkur sem fyrst og tryggja sér miða fyrir tónleikana. Við hlökkum mikið til og vitum að gestir okkar munu finna þennan jólafrið í hjarta eins og við finnum þegar við syngjum þessa fallegu söngva um Maríu,” segir Guðrún.

Hægt er að panta miða með tölvupósti: kvennakorsudurnesja@gmail.com eða hafa samband við kórkonur á facebook síðu kórsins Kvennakór Suðurnesja og kaupa við innganginn ef ennþá verða miðar til sölu það kvöld. Miðaverð er 2000 kr. í forsölu og 2500 kr. við innganginn. Frítt fyrir grunnskólabörn.