Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Jólatónleikar léttsveitar Tónlistarskólans
Fimmtudagur 4. desember 2003 kl. 12:24

Jólatónleikar léttsveitar Tónlistarskólans

 Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar heldur sína árlegu jólatónleika föstudaginn 5. desember kl.19.30 í Kirkjulundi, félagsheimili Keflavíkurkirkju. Bæði yngri og eldri Léttsveit munu koma fram með mjög fjölbreyttar efnisskrár sem m.a. innihalda mörg af fallegustu og hátíðlegustu jólalögunum. Léttsveit er tegund hljómsveitar sem gengur einnig almennt undir heitinu Stórsveit, eða “Big Band” á ensku, en slíkar hljómsveitir eru upprunnar í Bandaríkjunum og var blómaskeið þeirra á árunum 1920-1950. Meðal þeirra frægustu voru Big Band Glenn Millers og Big Band Dukes Ellingtons. Á síðustu 10-20 árum hefur orðið töluverð endurvakning stórsveita um allan heim og vinsældir þessarar tegundar tónlistar aukist jafnt og þétt, bæði meðal tónlistarunnenda og hljóðfæraleikara, en flestir þeirra sem kynnast því að spila í stórsveit,  finnst sú tónlist vera með því skemmtilegra sem þeir leika.
Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, bæði yngri og eldri sveit, eru með allra bestu skóla-stórsveitum landsins og hafa um árabil tekið þátt í stórsveitatónleikum sem Stórsveit Reykjavíkur stendur fyrir árlega í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar hefur til þess tekið hve vel spilandi sveitirnar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru og þær hafa jafnan fengið mjög lofsamlega dóma í dagblöðum eftir þá tónleika. Léttsveitin, sérstaklega eldri hópurinn, er Suðurnesjamönnum einnig að góðu kunnur og er oft á tíðum mjög mikið að gera hjá þeim hópi við að spila við hin ýmsu tækifæri á Suðurnesjum. Það er von hljóðfæraleikaranna í Léttsveitinni að sjá sem flesta gesti á tónleikunum að þeir fari heim af tónleikunum með gleði og jólaskap í hjarta.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og öllum heimill og eru Suðurnesjamenn eindregið hvattir til að mæta.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024