Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólatónleikar Kristjáns Jóhannssonar í Stapa - flottir Suðurnesjasöngvarar syngja með
Laugardagur 18. desember 2010 kl. 10:44

Jólatónleikar Kristjáns Jóhannssonar í Stapa - flottir Suðurnesjasöngvarar syngja með

Forréttindi að fá að læra hjá Kristjáni -segir Anton Þór Sigurðsson 23 ára söngnemi úr Grindavík, einn þriggja Suðurnesjasöngvara sem syngja með Kristjáni á jólatónleikunum



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingurinn Anton Þór Sigurðsson verður í góðum hópi söngvara sem koma fram með Kristjáni Jóhannssyni á jólatónleikum í Stapa nk. sunnudag 19. des. Með Antoni verða m.a. Suðurnesjastórsöngvararnir Jóhann Smári Sævarsson og Rúnar Þór Guðmundsson sem hefur verið að slá í gegn í Noregi að undanförnu.

Þeir fjórmenningar verða ekki einir því Valgerður Guðnadóttir sem var í aðalhlutverki í Söngvaseið syngur með þeim sem og Kór Keflavíkurkirkju undir stjórn Arnórs Vilbergssonar.
Kristján Jóhannsson sagði að eingöngu yrðu sungin jólalög en þessi frægasti stórtenór Íslands stendur í stórræðum fyrir þessi jól með útgáfu bókar og hljómdisks.

Grindvíkingurinn Anton sem er aðeins 23 ára gamall er í söngnámi hjá Kristjáni og telur sig heppinn að hafa komist í læri hjá kappanum.

Hvernig kom til að þú fórst að syngja?
Ég ferðaðist mikið sem strákur með afa Steina og ömmu Ernu. Afi hafði gaman af því að láta mig syngja gamlar perlur með Ellý Vilhjálms og Hauki Morteins svo eitthvað sé nefnt. Þetta varð til þess að ég fór að hafa áhuga á söng og hef verið meira og minna syngjandi síðan.
Hvernig nám hefurðu stundað?
Ég byrjaði að stunda nám í píanó- og básúnuleik við Tónlistarskólann í Grindavík á unga aldri. Á þeim tíma var Siguróli heitinn Geirsson skólastjóri og hvatti hann okkur nemendurna mikið til þess að taka þátt í kórstarfi kirkjunnar þar sem hann var einnig organisti. Upp úr kórstarfinu fer ég í söngnám hjá Rósulind Gísladóttur í T.G og er hjá henni á þriðja ár en ákvað síðan að taka mér smá hlé og hugsa minn gang.
Haustið 2009 er ég beðinn um að koma til liðs við söngsveitina Víkingana sem ég gerði og í framhaldi af því hvöttu bæði stjórnandi kórsins Hjördís Einarsdóttir og Steinar Guðmundsson organisti og undirleikari, mig til að sækja um í söngnámi hjá Kristjáni Jóhannssyni. Vegna ónógrar menntunar átti mér í raun að vera hafnað en fékk þó að mæta í söngprufu sem varð til þess að mér var gefinn kostur á námi.
Hvernig sérðu þína söng framtíð?
Ég er með mikinn metnað og áhuga og ætla mér stóra hluti í framtíðinni, ég horfi til þeirra sem þegar hafa gengið brautina og unnið stóra sigra og ætla mér ekkert minna.
Hvernig er að vera í söngnámi hjá Kristjáni Jóhannssyni?
Það er auðvitað stórkostlegt tækifæri fyrir mig að fá að njóta þeirra forréttinda að nema hjá söngvara sem hefur afrekað eins mikið og hann hefur gert og er sannarlega stórsöngvari á heimsmælikvarða. Eigum við bara ekki að segja að hann hefur lyft rödd minni uppá hærra plan.

Efst má sjá Kristján og söngvini á tónleikum hans í Stapa fyrr á þessu ári. Á hinum myndunum eru Anton og Rúnar Þór að þenja söngraddirnar.