Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólatónleikar kóra til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja
Laugardagur 1. desember 2012 kl. 05:24

Jólatónleikar kóra til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja

Fimmtudaginn 6. desember verða haldnir stórtónleikar í Stapanum til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja. Á tónleikunum koma fram 6 kórar af Suðurnesjum, en það eru Eldey, kór eldri borgara, Karlakór Keflavíkur, kór Keflavíkurkirkju, Kvennakór Suðurnesja, Sönghópur Suðurnesja og Söngsveitin Víkingar. Kórarnir munu syngja nokkur lög hver í sínu lagi og sameinast svo í lokin í einn stóran kór. Stjórnendur kóranna eru Arnór Vilbergsson, Helga Bryndís Magnúsdóttir, Dagný Þórunn Jónsdóttir, Magnús Kjartansson og Steinar Guðmundsson. Tónleikarnir hefjast kl. 20. Miðasala verður við innganginn og er miðaverði stillt í hóf, aðeins 1000 kr. Allur ágóði af tónleikunum rennur til Velferðarsjóðs Suðurnesja, einnig verður tekið við frjálsum framlögum í sjóðinn.

Á haustdögum kom upp sú hugmynd hjá kórkonum í Kvennakór Suðurnesja að fá aðra kóra til samstarfs við sig til að halda stóra jólatónleika. Þeir kórar sem haft var samband við tóku vel í erindið og þróaðist hugmyndin síðan út í að tónleikarnir yrðu haldnir til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja. Það er gleðilegt að allir þessir kórar skuli taka höndum saman og láta gott af sér leiða með þessum hætti.

Það hefur verið nóg um að vera hjá Kvennakór Suðurnesja í haust og vetur. Kórkonur höfðu umsjón með kósýkvöldi kvenna í sundlauginni í Sandgerði í ágúst. Kvöldið var liður í Sandgerðisdögum og tókst það frábærlega. Góð mæting var enda flott dagskrá í boði. Bláa lónið var með kynningu á vörum sínum, lesið var úr bókum frá bókaútgáfunni Lesstofunni, glæsilegt happdrætti með flottum vinningum, söngur og tískusýning þar sem kórkonur brugðu sér í hlutverk fyrirsæta og sýndu föt frá hönnuðum af Suðurnesjum.
Kórinn tók síðan þátt í tónlistardagskrá í Duushúsum á Ljósanótt í Reykjanesbæ í byrjun september. Kvennakór Suðurnesja hefur tekið þátt í hátíðinni frá upphafi enda er þetta frábær vettvangur fyrir menningarstarf og skemmtileg leið til að kveðja sumarið og hefja vetrarstarfið.
 
Vetrarstarfið hófst síðan af fullum krafti mánudaginn 10. september en þá var haldin opin æfing í Listasmiðjunni, Keilisbraut 773 á Ásbrú en þar er kórinn með æfingaaðstöðu. Kórkonur slógu þá upp Pálínuboði og buðu konum sem vildu kynna sér starfsemi kórsins að kíkja í heimsókn.

Þann 13. október skelltu kórkonur sér í óvissuferð um Reykjanesið undir leiðsögn Helgu Ingimundardóttur sem sagði ýmsar skemmtilegar sögur af svæðinu. Eftir að hafa keyrt Reykjaneshringinn var farið í heimsókn í verksmiðju Kaffitárs þar sem starfsemi fyrirtækisins var skoðuð og léttar veitingar bornar fram. Að því loknu var snæddur kvöldverður.

Skemmtikvöld Kvennakórs Suðurnesja var haldið 17. nóvember í Samkomuhúsinu í Sandgerði. Þá fékk kórinn félaga úr Karlakór Keflavíkur og Eldey, kór eldri borgara í heimsókn ásamt mökum. Boðið var upp á veitingar, söng, leiki, dans og gamanmál þannig að úr varð hin besta skemmtun.

Um síðustu helgi var síðan komið að hinum árlega laufabrauðsdegi kórsins en þá komu kórkonur saman og skáru út og steiktu laufabrauð í hundruðatali. Þetta er liður í fjáröflun kórsins en laufabrauðið hjá kvennakórnum er sívinsælt.

Næsta sunnudag kemur kórinn svo fram á aðventuhátíð eldri borgara sem Kvenfélag Keflavíkur stendur fyrir í Kirkjulundi. Auk alls þessa er svo undirbúningur fyrir stóru tónleikana í fullum gangi.

Kvennakór Suðurnesja hvetur alla sem vettlingi geta valdið að taka nú höndum saman og styrkja Velferðarsjóð Suðurnesja og hjálpa með því bágstöddum fjölskyldum fyrir jólin. Um leið og tónleikagestir láta gott af sér leiða fá þeir að eiga notalega stund og hlýða á ljúfa tónlist. Tónleikarnir verða eins og áður sagði í Hljómahöllinni í Stapa, fimmtudaginn 6. desember og hefjast þeir kl. 20.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024