Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólatíminn er skemmtilegastur á bókasafninu
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 30. nóvember 2022 kl. 10:31

Jólatíminn er skemmtilegastur á bókasafninu

Margir geta varla hugsað sér jólin án þess að vera með bók í hönd. Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, segir jólatímann alltaf vera skemmtilegan á bókasafninu enda sé mikið um að vera á safninu í kringum jólin. „Allar jólabækurnar koma í hús og lesendur spenntir að fá nýju bækurnar í hendurnar. Einnig njótum við þess að margir nemendur eru að nýta sér aðstöðu safnsins til að lesa undir próf á þessum tíma.“

Í kringum aðventuna er safnið skreytt og jólabókaflóðið hefst, auk þess býður bókasafnið upp á fjölbreytta viðburði í aðdraganda jóla. „Við reynum að hafa flesta viðburði í lok nóvember eða byrjun desember vegna þess að okkur finnst mikilvægt að fólk geti notið aðventunnar og tekið því rólega,“ segir Stefanía. 

Á síðustu árum hefur skapast sú hefð að bókasafnið bjóði upp á jólasýningu í Átthagastofu safnsins. „Í ár verður Jóla-kósý en þar má finna jólahús, jólatré og pakka og flottar skreytingar með amerísku ívafi,“ segir Stefanía. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá vil hún minna á að öll börn í Reykjanesbæ geta fengið frí bókasafnskort sem má nálgast á safninu. „Við minnum á að lestur góðra bóka er á við bestu núvitund. Við eigum öll bókasafnið saman, það er okkar hlutlausa og trausta rými þar sem allir eiga sinn stað. Ef bæjarbúar vilja fylgjast með því sem er að gerast í bókasafninu, minnum við á vefsíðuna okkar og samfélagsmiðla. Og auðvitað hvetjum við alla til þess að njóta aðventunnar með bók. Gleðileg bókajól,“ segir Stefanía að lokum. 

Jóladagskrá Bókasafns Reykjanesbæjar:

1.desember kl. 18:00. Christmas fun – Heimskonur/Women of the world

Heimskonur hittast og halda sinn árlega jólahitting í Bókasafni Reykjanesbæjar. Boðið verður upp á vöfflur og kakó.

1. desember kl. 20:00. Bókakonfekt 2022

Á Bókakonfekti Bókasafnsins í ár koma rithöfundarnir Úlfar Þormóðsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Jóhann Helgason og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Einnig verður boðið upp á tónlistaratriði með frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Viðburðurinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

2.–16. desember. Þitt nafn bjargar lífi | Aðgerðakort Amnesty International

Bréfamaraþon gengur út á það að senda stjórnvöldum, sem brjóta mannréttindi, bréf og þrýsta um leið á umbætur. Einnig eru þolendum mannréttindabrota sendar stuðningskveðjur og þannig minnt á þeim hefur ekki verið gleymt. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða til staðar í Bókasafni Reykjanesbæjar. Bréfamaraþonið stendur til 16. desember og eru allir hvattir til að kíkja við og kynna sér málið.

2.–23. desember. Umhverfisvæn innpökkunarstöð

Öllum er velkomið til að nýta til að pakka inn gjöfum fyrir jólin. Við hvetjum ykkur til að huga að umhverfisvænum aðferðum við innpökkunina með því að endurnýta gömul dagblöð, fjölpóst og bækur sem gjafapappír. Allt efni á staðnum.

1.–31. desember. Jóla-kósý í Átthagastofu Bókasafnsins

Þar má finna jólahús, jólatré og pakka og flottar skreytingar með amerísku ívafi. Sýningin er opin á opnunartíma safnsins. Sjón er sögu ríkari!