Jólasýning Sossu um helgina - Gunnar Þórðar og Anna Sigga koma fram
„Ég er alltaf að gera eitthavð nýtt, og svo er ég komin út í landslag aftur. Varð fyrir miklum áhrifum í Færeyjum og svo er það auðvitað Vatnsleysuströndin sem heillar, hús og landslag,“ sagði Sossa myndlistarkona, sem býður vinum og velgjörðarmönnum til sín á vinnustofuna á árlega jólasýningu í dag og á morgun.
Auk nýrra mynda koma góðir vinir Sossu í heimsókn og skemmta gestum. Söngkonan Anna Sigga Helgadóttir og Gunnar Þórðarson mæta sitt hvorn daginn á vinnustofu Sossu.
Sossa hefur undanfarin ár verið með annan fótinn í Kaupmannahöfn og er á leiðinni þangað eftir áramót þar sem hún verður með þrjár sýningar. Aðspurð um hvort Köben hafi ekki verið svolítið „2007“ segir hún svo ekki vera. „Ég var byrjuð að undirbúa mína „útrás“ 1994 þegar ég hélt mína fyrstu sýningu þar. Síðan hefur þetta gerst hægt og sígandi og óháð aðstæðum hér heima. Ég er því enn með vinnustofu þar.“
En hvernig er að selja „Baunanum“ málverk?
„Danir líta á málaverkakaup sem fjárfestingu með annarri áherslu en
Íslendingar sem eru tilfinninganæmari í slíkum viðskiptum“.
Koma þeir með sparipeninginn í veskinu og kaupa þannig, ekki í kredit eins og við?
Sossa hlær og segir: „Já, einmitt“.
Sossa er dóttir séra Björns Jónssonar sem var sóknarprestur í áratugi í Keflavíkurkirkju. Hún segist „messa“ yfir okkur með myndunum. Sossa hefur verið með jólasýningu síðan hún fluttist aftur til Keflavíkur fyrir fimmtán árum, fyrst í Grófinni hjá Bigga Guðna en þar leigði hún húsnæði undir vinnustofu fyrsta árið.
Hún segir að hún hafi verið mjög ánægð með heimsóknir til Færeyja- og Grænlands fyrir nokkrum árum og margar myndirnar hafi orðið til eftir þá ferð. Aðspurð um aðferðafræði þegar
hún málar á strigann segir hún að yfirleitt máli hún eftir sjónminni og
skyssum. Noti t.d. lítið ljósmyndir. „Ég skissa gjarnan upp á staðnum. Gerði það t.d. í Færeyjum. Svo á ég rætur að rekja til Vatnsleysustrandarinnar því amma og afi voru þaðan – og römm er sú taug.“
En fígurúrunar í myndunum þínum. Hverjir eru þetta?
Sossa hlær en segir svo: „Ég er búinn að hitta allar þessar fígúrur,
fólk héðan og þaðan“.
Sossa býður jafnan upp á osta og heimabakað brauð og heldur í gamlar hefðir. Vinnustofan verður opin á laugardag kl. 15-21 og sunnudag kl. 14-19.