Jólaspjall: Þurfti að opna pakkann inni í herbergi svo viðkvæmir myndu ekki fá áfall
Sæmundur Már Sæmundsson er vanafastur um jólin. Á aðfangadag keyrir hann út gjafir og kaupir það sem vantar í matinn. Hann segir að flott föt hitti yfirleitt í mark sem jólagjöf eða þegar fólk komi honum á óvart.
Hver er besta jólamyndin?
Planes, Trains and Automobiles er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Hvaða lag kemur þér í jólaskap?Jólalögin með Baggalúti koma mér strax í jólaskap.
Ertu vanafastur/föst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf? (Jólahefðir)
Já ég er mjög vanafastur um jólin. Dagarnir frá 24. til 31. des eru næstum alveg eins á hverju ári. Skemmtilegasta hefðin er áramótapartýið hjá fjölskyldunni hennar mömmu.
Hvernig er dæmigerður aðfangadagur hjá þér?Ég byrja daginn alltaf á því að taka rúnt og keyra út jólagjafir. Fer í leiðinni í 10-11 og kaupi sykur, sósulit eða eitthvað annað sem þarf að redda á síðustu stundu. Eftir langa bið kemur svo loksins að matnum. Svo þegar ég er búinn að troða eins miklum mat ofan í mig og ég mögulega get opna ég pakkana og á notalega kvöldstund með fjölskyldunni.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Systir mín ákvað að vera voða fyndin um árið og gaf mér Kynlífsbiblíuna. Ég var sendur inn í herbergi að opna pakkann svo að viðkvæmir fjölskyldumeðlimir myndu ekki fá áfall.
Hvað er í matinn á aðfangadag?Londonlamb.
Eftirminnilegustu jólin?
Ég man vel eftir fyrstu kartöflunni sem ég fékk í skóinn. Þá var ég 6 ára og ég varð ekkert smá fúll út í Giljagaur.
Hvað langar þig í jólagjöf?Einhver flott föt hitta yfirleitt vel í mark. Mér finnst líka agalega gaman þegar að fólk kemur mér á óvart.
Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér? (Borðar þú skötu?)Ég tek alltaf kósý Hafnargöturölt með fjölskyldunni. Einn daginn væri ég svo alveg til í að prófa að smakka skötu. Bara til þess að vita hvernig þetta umdeilda bragð er.