Jólaspjall: Hristir af sér konfektvímuna með göngutúr
- Ragnheiður Eyjólfsdóttir segir frá jólunum sínum
Jólabíómyndin sem kemur þér í jólaskapið?
Elf og National Lampoon's Christmas Vacation eru alltaf sígildar en svo finnst mér The Holiday líka alveg dásamleg.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Ég lagði á árum áður mikinn metnað í jólakortin, þau voru stór og flott og alltaf með mynd. Svo kom það upp eitt árið að við fórum til Flórída í jólafrí og jólakortin gleymdust. Ég var með samviskubit yfir því en það kom í ljós að lífið gekk sinn vanagang og ekkert alvarlegt tjón hlaust af svo eftir þetta hef ég kosið að halda áfram að „gleyma“ kortunum.
Ertu vanaföst um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf yfir hátíðarnar?
Ég er kannski helst vanaföst í jólaskrauti og þannig. Borðstofuglugginn, það er jólaglugginn, sem ég skreyti alltaf sjálf og þarf til þess að klifra í stiga upp í um fimm metra hæð til að ná í efsta gluggann. Ég lét mig hafa það meira að segja þegar yngri daman var á leiðinni og ég var komin tæpa átta mánuði á leið. Svo má ekki klikka á skötunni, það verður að vera skata. Undanfarin ár hafa Kristín mágkona mín og Sverrir, maðurinn hennar, haldið svakaleg skötupartý.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég hef nú fengið margar æðislegar en ég man sérstaklega eftir rauðbleikum kuldastígvélum með hvítu skinni inn í sem við Gunnsa systir fengum alveg eins ein jólin. Þau voru með há glansandi lakki og við svifum um á þeim þessi jólin.
Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum á jólum?
Jólaboð hjá ömmunum og þannig. Svo var það ein jólin þegar ég var krakki að við systur herjuðum mjög fast á foreldrana að fara í kirkju klukkan 18 á aðfangadag. Við höfðum stundum farið í kvöldmessur áður. Þessi jólin var gefið grænt ljós á að fara klukkan 18 en ég var greinilega komin með matreiðsluáhugann þarna sem loðir ennþá við mig. Ég fór sem sagt að búa til karamellu en brenndi mig og fékk rosalega blöðru sem var eins og sundfit milli litla fingurs og baugfingurs. Ég lét mig hafa það að fara í kirkjuna og var með kaldan þvottapoka í hendinni. Það kom augnablik sem mig langaði mest til að standa upp og öskra en náði sem betur fer að halda aftur af mér. Það var ekkert ýtt á það aftur að fara í kirkju á þessum tíma...
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Í forrétt er annað hvort humar, humarsúpa eða rósakálssúpa, það fer eftir aðföngum. Aðalrétturinn fer eftir því hverjir eru með okkur á aðfangadag. Ef mamma og pabbi eru hjá okkur þá erum við oftast með hamborgarhrygg og allt hefðbundið, annars eigum við það til að skipta yfir í nautalund.
Eftirrétturinn er svo arfleifð frá ömmu Eileen sem var ensk, það er „ananasdesert“ og er það sá hluti af matseðlinum sem er ekki breytilegur.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Þegar húsið er orðið hreint, búið að skreyta jólagluggann og jólatréð komið upp er þetta komið langleiðina. Svo gera útiþurrkuð sængurföt á Þorláksmessukvöldi útslagið.
Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera í útlöndum um jólin?
Við höfum, eins og kom fram áðan, verið í Flórída og það meira að segja tvenn jól. Áður en ég prófaði það átti ég það til að fitja upp á nefið og segja: „Hvernig getur fólk hugsað sér að vera bara í útlöndum um jólin og sleppa öllum hefðunum?“ Þetta viðhorf hefur heldur betur batnað með árunum og það er alveg inni í myndinni að fara einhvern tíma aftur. Við höfum reyndar, þessi skipti haldið jólin hjá Herdísi mágkonu í Flórída og Marnie manni hennar, svo við höfum bara dottið inn í jólahald með fjölskyldunni, bara á öðrum stað og jafnvel byrjað jóladag á labbitúr á ströndinni.
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Heimasmíðaða jólatréð er þar mjög ofarlega á lista en svo er ýmislegt fleira sem ég held upp á. Það má segja að við hjónin höfum hannað tréð í sameiningu. Ég sagði hvernig það ætti að vera en Siggi minn sá um tæknilega útfærslu sem hefur virkað svona ótrúlega vel.
Hvernig verð þú jóladegi?
Ég vil helst vera á náttbuxunum fram eftir degi, lesa og horfa á góðar bíómyndir og lúra smá. Það var samt alltaf nóg að gera á jóladag hjá okkur, á tímabili voru alltaf þrjú boð; hjá ömmu litlu í hádeginu, svo hjá Kristínu mágkonu og svo er ein í fjölskyldunni sem á afmæli á jóladag og við enduðum oft hjá henni um kvöldið. En þetta hefur breyst töluvert seinni ár og nú er meira verið að dóla framan af degi og svo fá voffarnir góða viðrun og mannfólkið hristir af sér konfektvímuna.