Jólasöngleikurinn „Hvað er í pakkanum?“ frumsýndur á laugardag
Jólasöngleikurinn Hvað er í pakkanum? eftir þær Freydísi Kneif Kolbeinsdóttur, Gunnheiði Kjartansdóttur og Írisi Dröfn Halldórsdóttur verður frumsýndur nk. laugardag. Lögin í sýningunni eru bæði hefðbundin og óhefðbundin jólalög sem flestir ættu að þekkja.
Æfingar hafa staðið yfir síðustu vikur og hafa leikarar staðið sig með eindæmum vel að sögn stjórnenda. Sýningin er samstarfsverkefni nemenda úr skólum á Suðurnesjum en þátttakendur eru úr grunnskólunum í Reykjanesbæ,
Grunnskólanum í Grindavík og FS og eru á aldrinum 7-16 ára.
Söngleikurinn fjallar um fjölskyldu sem er að leggja lokahönd á jólaundirbúninginn á Þorláksmessu. Nú þegar jólin nálgast er tilvalið tækifæri fyrir fjölskyldur að koma og sjá sýningu sem er full af gleði og minnir okkur á boðskap jólanna.
Sýnt verður á sal Myllubakkaskóla. Miðaverð er 1000 krónur. Miðasala opnar klukkutíma fyrir sýningu. Einnig er hægt að panta miða í síma 863-1009 eftir klukkan tvö á daginn.
Styrktarsýning
Athygli er vakin á sérstakri styrktarsýningu sem verður nk. miðvikudag, en allur ágóði af þeirri sýningu mun renna til Sigfinns Pálssonar og fjölskyldu hans, en Sigfinnur, sem er 13 ára nemi í Holtaskóla, greindist nýlega með krabbamein og vilja aðstandendur sýningarinnar sýna stuðning sinn í verki með þessu framtaki. Verð á aðeins þessa sýningu verður 1500 kr. en gestum er annars frjálst að leggja meira til þessa málefnis.
Mynd: Frá æfingu