Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólasálmurinn „Heims um ból“ eftir Njarðvíkinginn Sveinbjörn Egilsson
Sunnudagur 24. desember 2017 kl. 12:00

Jólasálmurinn „Heims um ból“ eftir Njarðvíkinginn Sveinbjörn Egilsson

-Sveinbjörn Egilsson (1791-1852) frá Innri-Njarðvík

Þegar sálmurinn er sunginn á hverjum jólum í Njarðvíkurkirkju, Innri-Njarðvík er alveg sérstök stemning þegar hugsað er til þess að hér var höfundurinn fæddur og uppalinn sín yngri ár. Sveinbjörn var af þeirri ætt kominn sem þar bjó í yfir 300 ár og einn frændi hans, bóndinn Ásbjörn Ólafsson, lét byggja Njarðvíkurkirkju 1886.

Sálmurinn er frumsaminn af Sveinbirni árið 1849 og var upphaflega kallaður „Jólasálmurinn“ en lagið og hugsunin er um þýska kvæðið og sálminn „Stille Nacht“ sem saminn var árið 1818. Seinna þýddi Matthías Jochumsson þýska sálminn yfir á íslensku og heitir sá „Hljóða nótt, heilaga nótt“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sveinbjörn var kennari við Bessastaðaskóla frá 1819 og fyrsti rektor Menntaskólans í Reykjavík 1846. Sumir af nemendum hans urðu þjóðkunn skáld og merkismenn: Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason, Grímur Thomsen o.fl. Sveinbjörn var mikill málsnillingur og menntaðasti Íslendingur sinnar samtíðar. Var sagt að hann kunni sautján tungumál vel. Hann þýddi m.a. margar af bókum Biblíunnar yfir á íslensku og hinar grísku Hómerskviður. Hann þýddi einnig mikið úr íslensku á latínu og dönsku og eru þýðingar hans úr íslenskum fornritum og gamla íslenska skáldamálið, Lexicon Poeticum, kallað mesta einstaklingsafrek í íslenskum fræðum. Höfðu þær þýðingar í för með sér að áhugi á 19. öld á Íslandi varð mikill í Evrópu.
Sveinbjörn var sendur ungur að heiman í nám hjá Magnúsi Stephensen að Leirá í Borgarfirði en þar var eitt mesta menningarsetur á Íslandi. Seinna eftir stúdentspróf hér heima nam hann guðfræði bæði í Danmörku og Þýskalandi og hlaut doktorsnafnbót í þeirri grein.

Faðir Sveinbjarnar var Egill „ríki“ Sveinbjarnarson, merkur bóndi á býlinu Innri-Njarðvík, mikill athafnamaður og auðugastur allra Suðurnesjamanna á sinni tíð. Þeir Sveinbjörn Egilsson og hinn þjóðkunni og merkismaður Jón Þorkelsson, „Thorkillius“ (1697-1759), sem kallaður hefur verið „faðir barnafræðslunnar á Íslandi“, voru af sömu ætt sem bjó á býlinu Innri-Njarðvík. Jón „Thorkillius“ var á sinni tíð menntaðasti maður á Íslandi og hafði mikinn metnað fyrir barnafræðslu á Íslandi. Jón var mjög efnaður maður og stofnaði sjóð, „Thorkillisjóðinn“, með þeim tilgangi að styrkja fátæk börn í Kjalarnesþingi og byggja skóla. Þeim frændum hefur báðum verið reistur minnisvarði í Innri-Njarðvík.

Helga Ingimundardóttir