Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólasaga Leikfélags Keflavíkur
Föstudagur 10. nóvember 2023 kl. 06:21

Jólasaga Leikfélags Keflavíkur

Leikfélag Keflavíkur frumsýnir í dag, föstudaginn 10. nóvember, jólasöngleikinn Jólasaga í Aðventugarðinum en verkið er byggt á hinu sígilda jólaleikriti Jólasögu Charles Dickens. Búið er að gera nýja leikgerð, setja í nútímabúning og staðfæra verkið að Suðurnesjum. Leikgerðina unnu þau Brynja Ýr Júlíusdóttir og Guðlaugur Ómar Guðmundsson en þau sömdu einmitt söngleikinn Fyrsti kossinn sem er með vinsælli sýningum leikfélagsins hingað til og fór í Þjóðleikhúsið sem áhugaverðasta áhugaleiksýningin árið 2022.

Ferlið hefur verið langt, strangt og skemmtilegt en í september fóru fram leik-, söng- og dansprufur þar sem rúmlega eitt hundrað einstaklingar spreyttu sig. Leikhópurinn samanstendur af 22 leikurum og þar af eru fimmtán börn á grunnskólaaldri. Þá tekur einnig þátt hópur barna úr „Regnbogaröddum“ barnakórs Keflavíkurkirkju undir stjórn Freydísar Kneifar Kolbeinsdóttur. Enn og aftur er Leikfélag Keflavíkur að gefa ungum krökkum tækifæri til að kynnast leikhúslífinu og því skemmtilega starfi sem þar fer fram.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að baki svona uppsetningar liggur gríðarleg vinna og fjölmargir sem leggja verkefninu lið utan leikarahópsins. Búningavinna, ljósa- og sviðsvinna, hljóðtækni og allt mögulegt sem ekki gerist án góðra félaga sem flestir vinna í sjálfboðavinnu eins og leikararnir. Það er alltaf líf og fjör í Frumleikhúsinu og félagið leggur mikinn metnað í að byggja upp gott félag og um leið bjóða bæjarbúum upp á fjölbreyttar, metnaðarfullar sýningar við allra hæfi. Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson er leikstjóri og Sigríður Rut Ragnarsdóttir Ísfeld er danshöfundur.

Eins og venja er þegar leikarahópurinn er fjölmennur þá er uppselt á frumsýningu en allar upplýsingar um sýningar og miðaverð má nálgast á tix.is, segir í tilkynningu frá Leikfélagi Keflavíkur.