Jólaóratoría Sigurðar Sævarssonar flutt í dag
Í dag, sunnudaginn 2. desember kl.17 verður frumflutt, í Hallgrímskirkju, ný jólaóratoría fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, eftir Sigurð Sævarsson. Flytjendur verða kammerkórinn Schola cantorum, Caput hópurinn og Björn Steinar Sólbergsson, orgelleikari, undir stjórn Harðar Áskelssonar. Um einsönginn sjá Kirstín Erna Blöndal, sópran og Jóhann Smári Sævarsson, bassi.
Aðspurður segir Sigurður þetta vera verk sem samin eru við texta sem fjallar um fæðingu Jesú.
„Í mínu verki nota ég t.d. hluta af Lúkasar guðspjallinu ásamt fleiri textabrota úr biblíunni og nýrri texta. En allur textinn verður fluttur á latínu,“ segir Sigurður.
- Af hverju latínu?
„Helsta ástæðan fyrir því er að það auðveldar alla kynningu erlendis. Öll kórverkin, sem ég hef samið við latneska texta, hafa verið flutt erlendis, utan eitt. En það er einmitt til skoðunar núna beggja vegna Atlantshafsins. Svo er bara mjög gaman að vinna með þetta tungumál“.
- Hvað varstu lengi að semja verkið?
„Ég byrjaði í október 2011 að leita að textum og setja saman hugmyndir og var svo að skrifa síðustu nótuna núna fyrir helgi. Þannig að þetta er rúmt ár við píanóið“.
- Ég sé að bróðir þinn syngur annað einsöngshlutverkið. Vinnið þið mikið saman?
„Já, hann söng t.d. eitt aðalhlutverkið í óperunni minni Hel, sem var frumflutt í Íslensku Óperunni á Listahátíð 2009. Svo skrifaði ég fyrir hann verk við ljóð Snorra Hjartarsonar. Það frumflutti hann ásamt Kammersveit Reykjavíkur, undir stjórn Petri Sakari 2011. Síðan má nefna fyrsta verkið sem ég skrifaði með hann í huga, Hallgrímspassíu. Passían var frumflutt 2007, í Hallgrímskirkju, af sömu flytjendum og nú flytja Jólaóratoríuna. Verkið var svo flutt aftur á Kirkjulistahátíð 2010 og hljóðritað við það tækifæri. Diskurinn var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2011 sem besta platan í flokki klassískrar og samtímatónlistar. Jóhann Smári var einnig tilnefndur sem söngvari ársins, meðal annars fyrir söng sinn í Hallgrímspassíunni“.
- Eru einhver plön með að hljóðrita Jólaóratoríuna?
„Já, ég er búinn að fá nokkra styrki, t.d. frá Menningarráði Suðurnesja sem gerir okkur kleyft að hljóðrita verkið. Síðan er stefnt að því að diskurinn komi út fyrir jólin 2013,“ sagði Sigurður Sævarsson tónskáld að endingu.