Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólalyktin kemur með hangikjötinu
Sunnudagur 4. janúar 2015 kl. 14:32

Jólalyktin kemur með hangikjötinu

Guðbjörg Ágústa Sigurðardóttir er hjúkrunarfræðingur og starfar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Guðbjörg er eiginkona Ellerts Eiríkssonar en hann sér um matseldina á aðfangadagskvöld þar sem rækjukokteill, hamborgarhryggur og heimalagaður ís koma við sögu. Meðan hann eldar er hún hins vegar að ljúka þrifum á heimilinu en Guðbjörg vill hafa allt nýþrifið þegar jólin ganga í garð.

– Hver er besta jólamyndin?
„Það er myndin "The Holiday" með Cameron Diaz, Jack Black, Jude Law og Kate Winslet“.

– Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
„Platan með Boney M. "The most beautiful Christmas songs of the world" kemur mér alltaf í jólaskap ásamt Snjókorn falla með Ladda“.

– Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Já, ég hef verið mjög vanaföst hvað varðar mat og jólaboð þar sem stór fjölskyldunni hefur ávallt verið kl. 16:00 á annan í jólum. Síðan hafa Jólakortin alltaf verið tekin upp og lesin að loknum jólakvöldverði og pakkaflóði“.

– Hvernig er dæmigerður aðfangadagur?
„Ég vil hafa allt nýþrifið þegar jólin ganga í garð svo dagurinn hefst á því að gera húsið hreint, skipta á öllum rúmum og þvo allan þvott, strauja og pressa jólafötin á fjölskylduna. Leggja á jólaborðið og skreyta það. Eiginmaðurinn sér ávallt um matseldina“.

– Eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
„Jólagjöfin sem ég fæ hverju sinni er eftirminnilegasta gjöfin enda endurspeglast í henni ástúð og umhyggja gefandans“.

– Hvað er í matinn á aðangadag?
„Það er rækjukokteill í forrétt, hamborgarhryggur í aðalrétt og heimalagaður vanillurjómaís í eftirrétt“.

– Eftirminnilegustu jólin?
„Þegar ég var 13 ára gömul gerði fárviðri þar sem ég átti heima og þakið fauk af húsinu ásamt steyptum strompi sem vóg 6-700 kg. Ég átti heima á sveitabæ sem heitir Kirkjubær og er á Rangárvöllum. Bærinn er 7 km frá aðalveginum og enginn bær nálægt. Þetta var rétt fyrir jól eða nánar tiltekið 22. desember og ég ásamt móður minni og yngri bróður vorum bara þrjú heima. Þetta var að kvöldi til og það var búið að vera mikið rok allan daginn og jókst eftir því sem leið á kvöldið. Húsið skalf þegar mestu vindkviðurnar gengu yfir og þakið var að losna. Þakið fór af í heilu lagi eins og áður sagði ásamt strompnum með miklum látum og féll ofan í hlöðuna sem var við hliðina á húsinu. Jólin fóru meira og minna forgörðum hjá okkur þetta árið þar sem við þurftum að flytja í annað húsnæði til bráðabirgða. Í kjölfarið hefur fylgt mikil vanlíðan þegar illviðri ganga yfir“.  

– Hvað langar þig í jólagjöf?
„Besta jólagjöfin væri að geta haft öll börnin mín heima á Íslandi“.

– Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu?
„Það hefur verið hefð fyrir því að skreyta jólatréð og sjóða hangikjötið á Þorláksmessukvöld. En nú er það aðeins breytt og tréð er skreytt nokkru fyrr en áður en hangikjötið er áfram soðið á Þorláksmessukvöld til að fá jólalyktina í húsið. Skatan er hins vegar borðuð á veitingahúsi eða hjá góðgerðarsamtökum og ekki soðin heima,“ segir Guðbjörg Ágústa Sigurðardóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024