Jólaljósin á vinabæjarjólatrénu í Reykjanesbæ tendruð í 56. sinn

Það er Leonard Ben Evertsson nemandi úr 6. bekk Akurskóla sem fær þann heiður í dag, sunnudag að kveikja ljósin á jólatrénu á Tjarnargötutorgi sem er að venju gjöf frá Kristiansand í Noregi, vinabæ Reykjanesbæjar. Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar, veitir trénu viðtöku fyrir hönd íbúa og ávarpar viðstadda.

Jóladýrin í Hálsaskógi og jólasveinar líta við
Það er næsta víst að margir bæjarbúar hafa alist upp við það að vera viðstaddir tendrunina á vinabæjarjólatrénu og það er eins með þetta og aðrar  jólahefðir, að það má alls ekki breyta þeim. Enda verður þetta skemmtileg stund. Blásarasveit frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur jólalög við tréð á meðan gesti drífur að og dýrin í Hálsaskógi, sem öll börn í bænum elska, eru nú komin í jólaskap og koma fram sem Jóladýrin í Hálsaskógi og ætla að skemmta börnunum eins og þeim er einum lagið. Þá koma jólasveinar í heimsókn og dansa í kringum tréð. Boðið verður upp á heitt kakó og piparkökur til að halda hita á mannskapnum. Dagskráin hefst kl. 17 og verður lokið kl. 18.

Þá verða jólaljósin einnig tendruð í Sandgerði og Garði kl. 17. og 18 og í Vogum á Vatnsleysuströnd kl. 17.