Jólakveðjurnar í útvarpinu eru nauðsynlegar
Vilhjálmur Árnason vil leiga nægan graflax um hátíðirnar
Vilhjálmur Árnason, þingmaður úr Grindavík grípur mikið í graflax um jól og ármót. Hann svaraði nokkrum jólaspurningum VF.
Jólabíómyndin sem kemur þér í jólaskap? Fjölskyldan horfir alltaf saman á myndina Christmas Vacation á aðventunni.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir? Þegar strákarnir okkar þrír voru enn yngri vorum við dugleg að senda jólakort með myndum af þeim, en höfum ekki gert það síðastliðin jól. Jólakortin eru hátíðleg og hafa alltaf verið stór þáttur í jólahaldinu, sérstaklega að setjast saman á jóladag og lesa kortin. Maður sendir jólakveðju á aðfangadag á Facebook en það kemur ekkert í staðinn fyrir jólakortin.
Ertu vanafastur um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar? Í grunninn er ég það já. Hefðir eru það sem einkennir jólin og gerir þau hátíðleg finnst mér. Hef samt verið opinn fyrir breytingum eftir að ég flaug á brott úr foreldrahúsum og stofnaði mína eigin fjölskyldu. Nýjar venjur eru að festast í sessi ef svo má segja. Ein venjan sem ég held fast í er að eiga til mikið af graflax og graflax sósu til að borða á milli jóla og nýárs. Jólakveðjurnar í útvarpinu á Þorláksmessu eru nauðsynlegar og hlustum við alltaf á þær á meðan við erum að leggja lokahönd á jólaundirbúninginn.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Maður hefur fengið margar fallegar og góðar jólagjafir. Ein þeirra er alltaf minnisstæðust og tengist það jólahefðunum. Eitt af því sem einkennir jólin og hefur gert lengi eru gömlu góðu Mackintosh Quality Street nammimolarnir. Nema eitt árið gleymdist það í jólainnkaupunum hjá mömmu og pabba og fattaðist ekki fyrr en seint á aðfangadag með tilheyrandi svekkelsi. Það varði ekki lengi þar sem systir hans pabba hafði fyllt jólagjöfina okkar bræðra af Mackintosh og málið leyst. Ég man nú samt ekkert hvað annað var í þeim jólapakka.
Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum? Eftirminnilegast eru eftirréttarboðin heima hjá ömmu og afa á aðfangadagskvöld. Þangað fórum við eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir og hittum stórfjölskylduna, borðuðum risavaxinn og sérútbúinn eftirrétt, svo var spilað og hlegið langt fram á jólanótt.
Hvað er í matinn á aðfangadag? Ég held að ég hafi alltaf fengið lambakjöt á jólunum, þá oftast lambahrygg.
Hvenær finnst þér jólin vera komin? Þegar jólaljósin eru komin upp og lýsa upp heimilið í myrkrinu. Fátt betra en að fara sofa við birtuna af jólaljósunum.
Hefur þú verið eða gætirðu hugsað þér að vera erlendis um jólin? Ég hugsa að ég gæti alveg fallist á að prófa það ein jól en er mun spenntari fyrir að fara til útlanda strax eftir aðfangadag og vera fram yfir áramótin.
Áttu þér uppáhaldsjólaskraut? Ég held mikið upp á ljósajólasvein sem Árni Jóns, vinur hans pabba, gaf mér ein jólin. Ég hélt mikið upp á Árna en hann lést langt um aldur fram.
Hvernig verð þú jóladegi? Í náttfötum og rólegheitum heima, lesum jólakortin, skoðum bækur, púslum og setjum saman jólagjafir strákanna ef svo ber undir. Svo förum við fjölskyldan alltaf í hangikjötsveislu hjá mágkonu minni og fjölskyldu hennar um kvöldið.