Jólahús í Reykjanesbæ!
Jóli - ilmandi jólahús í miðjum Reykjanesbæ hefur verið opnað í Kjarna í göngugötunni við Icelandair Hotel í Keflavik. Þar verður boðið upp á sannkallaða jólastemmningu fram að jólum.
Búið er að koma upp fallega skreyttum húsum, sýningarsal, kaffíhúsi og sviði sem verður vettavangur viðburða fyrir alla fjölskylduna í anda jólanna.
Leikskólabörn í Reykjanesbæ koma að jólahúsinu með ýmsum hætti. Leikskólinn Holt skreytti gjafatré, þar sem allir geta stutt Velferðarsjóð Suðurnesja með gjöfum til þeirra sem minna hafa á milli handanna yfir hátíðarnar. Þá hefur verið sett upp sýning á piparkökuhúsum sem snillingar framtíðarinnar á eftirtöldum leikskólum víða um Suðurnes hafa gert: Gefnarborg, Heiðarsel, Heilsuleikskólinn Háaleiti, Holt, Vesturberg og Gimli
Lögð verður áhersla á að kynna handverk, hönnun, myndlist, heimilisiðnað, mat og drykk. Listamenn, hönnuðir og handverksfólk selja fjölbreytta vöru sína og er þar án efa að finna margar líklegar jólagjafir.
Jólahlaðborðið á Vocal svignar undan kræsingum alla laugardaga, Brunch sunnudaginn 4. desember og ekki má gleyma Jólabrunch fjölskyldunnar 11. desember þar sem, starfsfólk bregður á leik með börnunum og jólasveinar, Grýla og Leppalúði kíkja í heimsókn.
Næstkomandi mánudag verður opnuð heimasíðan www.jóli.is. Þar verður hægt að nálgast upplýsingar um listamenn, hönnuði og allan þann varning og uppákomur sem í boði verður hjá Jóla fram að jólum, ásamt ýmsum skemmtilegum fróðleik í anda jólanna.
Opið verður alla fimmtudaga og föstudaga frá kl: 18:00 til 21:00 – Laugadaga frá 13:00 til kl: 21:00 og sunnudaga frá kl 13:00 til 17:00 fram að jólum.
Jóli býður ykkur öll velkomin inn úr kuldanum í ilmandi hlýja jólastemmningu. Hjá okkur er alltaf gott veður sama hvernig viðrar úti.