Jólagjafaleiðangur í Reykjanesbæ #3
Hver hefur ekki sagt oft og mörgum sinnum: „Æi, ég nenni ekki til Reykjavíkur að versla?“ Það hafa eflaust margir brunað til Reykjavíkur til þess að leita að gjöf undir jólatréð en gripið í tómt og komið til baka í heimabyggð og fundið það sem leitað var að. Í Reykjanesbæ eru margar verslanir sem bjóða upp á mikið úrval af gjafavöru fyrir unga sem aldna. Blaðamenn Víkurfrétta tóku hús á nokkrum verslunum í Reykjanesbæ og fundu jólagjafir undir 3.000 krónum og einnig vinsælustu vöru verslananna. Sólborg Guðbrandsdóttir tók meðfylgjandi myndir.
Herrafataverslunin Vibes, að Hafnargötu 32, hefur verið starfrækt í um eitt og hálft ár og er hún full af flottum vörum fyrir fólk á öllum aldri. Derhúfur hafa verið vinsælar hjá unga fólkinu undanfarin misseri en þessar derhúfur fást í mörgum litum í Vibes á undir 3.000 krónur. Hvíti gallajakkinn er heitur í Evrópu um þessar mundir að sögn Írisar Harðardóttur eiganda og hefur rúllukragabolurinn líka notið mikilla vinsælda í ár.
Húsgagnaverslunin Bústoð er flestum Suðurnesjabúum kunn enda rótgróin verslun í hjarta Reykjanesbæjar, staðsett að Tjarnargötu 3. Þessi fallegu hús fást hjá þeim fyrir tæpar 3.000 krónur og í rökkrinu kemur falleg birta af kertinu inn í húsinu. Hnettirnir hafa verið vinsælir undanfarin misseri og fást hnettir í alls konar litum og stærðum í Bústoð.
Í versluninni Ormsson, Hafnargötu 25, er hægt að kaupa hin ýmsu heimilistæki, jafnt stór sem smá. Rafmagnstannburstar njóta alltaf mikilla vinsælda hjá yngri kynslóðinni og fást þessir skemmtilegu tannburstar undir 3.000 krónum í versluninni. Sous Vide eldunaraðferðin hefur heldur betur náð að heilla landann og fæst Sous Vide tæki í Ormsson en Ólöf María Karlsdóttir verslunarstjóri segir að tækið sé afar vinsælt hjá þeim.