Jólagjafaleiðangur í Reykjanesbæ #2
Hver hefur ekki sagt oft og mörgum sinnum: „Æi, ég nenni ekki til Reykjavíkur að versla?“ Það hafa eflaust margir brunað til Reykjavíkur til þess að leita að gjöf undir jólatréð en gripið í tómt og komið til baka í heimabyggð og fundið það sem leitað var að. Í Reykjanesbæ eru margar verslanir sem bjóða upp á mikið úrval af gjafavöru fyrir unga sem aldna. Blaðamenn Víkurfrétta tóku hús á nokkrum verslunum í Reykjanesbæ og fundu jólagjafir undir 3.000 krónum og einnig vinsælustu vöru verslananna. Sólborg Guðbrandsdóttir tók meðfylgjandi myndir.
Fjóla Gullsmiður er staðsett á Hafnargötu 34, en Fjóla hefur starfað um árabil á Hafnargötunni og hefur jólaverslunin gengið vel. Þessi fallegi bolli með Línu Langsokk fæst hjá Fjólu og kostar undir 3.000 krónur. Danska skartgripalínan Heiring nýtur mikilla vinsælda að sögn Fjólu og hafa englakrossarnir í línunni verið vinsælir í nafna- og skírnargjafir.
Rúna, eigandi Gallerí Keflavík að Hafnargötu 32, er með margt flott í versluninni sinni. Þessir fallegu eyrnalokkar fást í Gallerí undir 3.000 krónur og segir Rúna að pelsarnir hafi verið afar vinsælir í ár og þeir rokið út. Þessir fallegu pelsar fást í Gallerí Keflavík en ýmsir litir eru til í búðinni.
Að Hafnargötu 29 er snyrtivöruverslunin Daría, en þar fæst fjölbreytt úrval af snyrtivörum, allt frá andlitskremum til varalita. Pop Socket símafylgihluturinn hefur rokið út í Daríu að sögn Jóhönnu Óskar Þorsteinsdóttur, eigandi verslunarinnar, en hann fæst á undir 3.000 krónum í öllum regnbogans litum. Förðunarspeglarnir eru án efa vinsælasta varan og þegar blaðamenn Víkurfrétta bar að garði voru nokkur bretti þegar rokin út af speglunum.