Jólagjafainnkaupin með heldur óhefðbundnum hætti
Daði Þorkelsson er rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum.
„Vinnan er heldur betur ekki með hefðbundnu sniði þessa daganna en ég vinn á starfstöð lögreglunnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar er ekki alveg jafn margir og venjulega að fara um – en út af svolitlu eru verkefnin nokkuð sérstök og snúast mikið um að gæta landamæranna eftir reglum sóttvarnarlæknis. Verkefni lögreglu eru þó enn fjölmörg, flókin og tímafrek svo sjaldan að manni leiðist. Oftast er það þó að greiða leið fólks eða aðstoða svo það er gefandi,“ segir Daði í samtali við Víkurfréttir. Hann svaraði nokkrum jólaspurningum blaðsins.
– Fyrstu jólaminningarnar?
„Það er auðvitað afar löng bið eftir að gengið væri frá í eldhúsinu svo hægt væri að byrja að opna pakka, auðvitað reyndi maður að aðstoða við að ganga frá og skola af diskum til að reyna að stytta tímann.“
– Jólahefðir hjá þér?
„Áður fyrr fór ég um alla Heimaey á aðfangadag með pabba að keyra út síðustu pökkunum og jólakortunum. Núna er jólakort og kveðjur með rafrænum hætti svo það skutl er úr sögunni. Núna eru fyrstu jólin á nýjum stað svo það er hætt við að það verði reynt að skapa nýjar hefðir fyrir jólin. Aðfangadagskvöld þetta árið hjá mér verður í haldið eins hátíðlegt og hægt er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar því ég verð á vakt. Það er alltaf jafn erfitt að vera ekki heima við þessa hátíðadaga en það er því miður ekki hægt að loka hjá lögreglunni en vona þó það verði með rólegra móti.“
– Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
„Held það sé ekki hægt að kalla það að vera duglegur að hjálpa til eftir fremsta móti og getu. Best að spyrja aðra hvort það flokkast undir hjálp eða að flækjast fyrir.“
– Uppáhaldsjólamyndin?
„Die Hard er auðvitað langbesta jólamyndin, hélt að það væri óumdeilt. Ég hélt að allir væru sammála því.“
– Uppáhaldsjólatónlistin?
„Uppáhaldsjólalagið mitt er It's beginning to look a lot like Christmas með Johnny Mathis en ég get verið smá Grinch þegar jólalög byrja að hljóma í október.“
– Hvar verslarðu jólagjafirnar?
„Þetta eru fordæmalausir tímar svo jólagjafainnkaupin hafa verið með heldur óhefðbundnum hættir og allt það sem hægt er að kaupa á netinu keypt þar, að langmestu leyti af innlendum vefverslunum. Annars er ég algerlega ómögulegur í að versla jólagjafir en svo ótrúlega heppinn að eiga góða að sem aðstoða mig í því. Svo það viðurkennist fúslega að í eigin persónu versla ég ekki mikið.“
– Gefurðu margar jólagjafir?
„Ætli ég sé ekki ótrúlega nálægt hinu annars ágæta ríkismeðaltali, reyni að sjá til þess að allir fái í það minnsta kerti og spil. Finnst sannarlega skemmtilegra að gefa en þiggja.“
– Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Eins rosalega kassalegur og vanafastur sem ég er þá er frekar ótrúlegt að fastar jólahefðir séu ekki í föstum, hefðbundnum skorðum. Hangikjöt með uppstúf og kartöflum á jóladag eða annan í jólum hefur þó held ég fylgt mér alla tíð.“
– Hvað langar þig í jólagjöf?
„Ég er alveg einstaklega erfiður þessi jól en hef mikið vafrað á netinu og gluggað í alla þá auglýsingabæklinga sem ég kemst í – en algjörlega án þess að finna eitthvað sem hugurinn girnist. Er alveg jafnómögulegur að velja fyrir sjálfan mig eins og ég er lélegur að velja fyrir aðra. Ef börnin verða ánægð með jólinn þá verð ég sáttur.“
– Hvað er í matinn á aðfangadag?
„Í fyrra fékk ég í fyrsta skiptið Roast Beef-steik með heimagerðu rauðkáli, steiktum lauk og tilheyrandi. Held og vona að það sé nýja aðfangadagshefð hjá mér – en mest af öllu vona ég að verkefnastaðan á vaktinni leyfi að ég hafi tök á að skjótast heim um matarleytið til að borða með fjölskyldunni.“
– Eftirminnilegustu jólin?
„Svakalega erfitt að velja úr ein til að setja efst á blað. Minningar af því þegar sérstaklega vel tekst til við að gleðja börnin mín held ég að verði fyrir valinu.“