Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Mánudagur 24. desember 2001 kl. 22:48

Jólagæs heimakær hjá Búmönnum í Garði

Feit og pattaraleg gæs hefur verið daglegur gestur hjá íbúum Búmanna-húsanna við Kríuland í Garði síðustu daga. Gæsin er mjög gæf og auðvelt að nálgast hana. Yngri fugl hefur einnig verið með þeirri „feitu“ en hann er ekki eins gæfur.Andrés Jónasson, íbúi að Kríulandi 17, sagðist í samtali við fréttavef Víkurfrétta vera orðinn nokkuð þreyttur á gæsinni, enda væri hún orðin helst til of heimakær.
Íbúarnir í Kríulandi hafi fyrst um sinn gefið gæsunum brauð en þær hafi hins vegar þakkað fyrir sig með því að skíta allt út og séu þar af auki búnar að stórskemma grasflötina við húsin. Andrés sagði gæsirnar rífa upp rætur og róta upp sandi með brauðátinu. Svo þegar þær fái ekki að éta þá standi þær gargandi undir eldhúsglugganum.
Andrés sagði gæsirnar búnar að vera þarna í nokkurn tíma. Þegar snjóakaflinn kom um daginn hafi þær farið og frést af þeim við hús í Sandgerði. Hann taldi hins vegar að gæsin væri úr höfuðborginni og vön því að fá brauð við Tjörnina.
Hvort gæsin endar í ofninum hjá einhverjum íbúanna við Kríuland verður svo bara að koma í ljós. Brauðfyllingin ætti alla vega ekki að vera vandamál.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024