Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólaeplin voru miklu betri í gamla daga
Mánudagur 19. desember 2016 kl. 06:00

Jólaeplin voru miklu betri í gamla daga

Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar segist vera mikið jólabarn, er vanafastur og í huga hans voru jólaeplin alltaf miklu betri í gamla daga.
 

Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
Elf, hún er algerlega frábær og fjölskyldan horfir á hana saman um hver jól og við hlæjum alltaf jafn mikið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?

Þessu er blandað saman. Enn eru send nokkur kort á þá sem ekki eru á Facebook.

Ertu vanafastur um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?

Já, mjög vanafastur og fjölmargir hlutir sem hafa sinn fasta sess um hátíðirnar. Til dæmis hef ég, alveg frá því að ég var lítill strákur, alltaf farið með föður mínum á Þorláksmessu eða aðfangadag (fer eftir veðri) og heimsótt leiði ættingja og vina í kirkjugörðum á svæðinu. Aðrir hlutir eru jafnan í föstum skorðum, bæði hvað varðar mat, drykk og ánægjulegar stundir með fjölskyldunni.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Einhverra hluta vegna dettur mér í hug forláta „Pacman“ tölvuspil sem ég fékk frá bræðrum mínum þegar ég var lítill. Líklega vegna þess að þeir steingleymdu að kaupa pakka handa litla bróður sínum fyrir jólin en náðu algerlega að bæta fyrir vonbrigðin með þessu flotta tölvuspili eftir jól.

Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum?

Já, fjölmargt. Eitt er hvað jólaeplin voru alltaf miklu betri í gamla daga.

Hvað er í matinn á aðfangadag?

Við Inga konan mín, höfum haft hamborgarhrygg alla tíð frá því við byrjuðum að búa. Það var alls ekki erfitt að koma sér saman um það þar sem svipaðar hefðir voru á heimilum okkar beggja fyrir.

Hvenær eru jólin komin fyrir þér?

Ég er mikið jólabarn og finnst jólin frábær tími. Aðventan finnst mér mjög skemmtileg og finn sterkt fyrir jólunum alveg frá því að aðventan hefst.

Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin?

Ég hef aldrei prófað það og langar ekkert sérstaklega til þess. Ég er þó ekkert að útiloka að það geti gerst síðar.

Hvernig brástu við þegar þú komst að leyndarmálinu um jólasveininn?

Hvað meinarðu, er eitthvað leyndarmál?

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?

Já, ég á nokkra uppáhalds muni sem nýttir eru til að skeyta jólatréð og hefur verið safnað í gegnum árin.

Hvernig verð þú jóladegi?

Slaka á með fjölskyldunni fram eftir degi og undanfarin ár höfum við síðan farið í kaffiboð þegar líður á daginn.