Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jóladagskráin í Reykjanesbæ 2020
Jólaskreytingar hafa smám saman verið að birtast í Reykjanesbæ. Í vikunni var verið að setja upp jólatréð við Fisherstorg í nágrenni Duus safnahúsa. VF-mynd: pket.
Laugardagur 28. nóvember 2020 kl. 07:33

Jóladagskráin í Reykjanesbæ 2020

Menningar- og atvinnuráð Reykjanesbæjar lýsir á síðasta fundi sínum ánægju með metnaðarfulla jóladagskrá stofnana Reykjanesbæjar og hvetur íbúa til virkrar þátttöku í henni enda er hún þeim að kostnaðarlausu.

Aðventugarðurinn alla laugardaga í desember og á Þorláksmessu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðventugarðurinn er nýtt verkefni sem ætlað er að vekja upp skemmtilega jólastemmningu. Ráðhústorg og hluti skrúðgarðsins verða skreytt og boðið upp á óvæntar uppákomur til að gleðja gesti og gangandi. Þar verða einnig sölukofar þar sem íbúar og aðrir geta selt varning tengdan jólum.

Jólasveinaratleikur og óskalistar til jólasveinanna

Á aðventunni stendur fjölskyldum til boða að fara í ratleik í Duus Safnahúsum og leita að gömlu jólasveinunum sem hafa falið sig hér og þar um húsið. Þá er hægt og biðja Skessuna í hellinum um að koma óskalista til jólasveinanna. Viðburðurinn er frá 5. desember til  6. janúar kl. 12:00–17:00 í Duus Safnahúsum.

Skreytum saman Jólastofu

Fjölskyldur búa til kramarhús, músastiga og jólahjörtu til að skreyta Jólastofuna í anda jólatrésskemmtana Duus-fjölskyldunnar í upphafi tuttugustu aldar. Notaleg jólaföndurstund fyrir fjölskyldur. Viðburðurinn er sunnudaginn 6. desember kl. 13–16 í Duus Safnahúsum.

Jólasveinn dagsins

Stekkjastaur kemur til byggða þann 12. desember og bræður hans einn af öðrum á hverju degi til jóla. Þeir munu koma við í Duus Safnahúsum daglega til jóla og bregða á leik. Hægt verður að fylgjast með uppátækjum þeirra á Facebook-síðu Duus Safnahúsa á hverjum degi.

Þrettándagleði verður miðvikudaginn 6. janúar. Nánari útfærsla hennar verður kynnt síðar í ljósi samkomutakmarkana.