Jólabarnið flýtti sér í heiminn
Jóhanna Ósk Pedersen og Aron Örn Birkisson eignuðust dreng á aðfangadagskvöld á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en þetta var annar drengurinn þeirra. Drengurinn var 49 cm og 3355 grömm.
Settur dagur hjá Jóhönnu var 2. janúar nk. og kom því litli snáðinn í heiminn nokkrum dögum fyrir settan dag. „Fæðingin gekk vel, ég var komin upp á spítala um hálf níu á aðfangadagskvöld og var hann kominn í heiminn kl. 23:04.“
Þegar Jóhanna er spurð hvernig hafi verið að eiga yfir hátíðirnar segist hún hafa náð að borða í flýti og opnað þrjár gjafir áður en hún fór upp á spítala og þar sem hún segist hafa fengið bestu jólagjöfina.
Fyrstu dagar fjölskyldunnar hafa gengið vel og eru þau öll að kynnast nýja fjölskyldumeðlimnum og læra á hvert annað. „Við vissum að við ættum von á dreng en fyrir eigum við átján mánaða strák sem tekur nýja bróður sínum ágætlega.“