Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólabarn eins og mamma
Miðvikudagur 26. desember 2018 kl. 10:00

Jólabarn eins og mamma

Þorbjörg Bragadóttir býr í Sandgerði er ein af þessum kjarnakonum sem bakar, þrífur, býr til jólagjafir og einnig sín eigin jólakort

Hún bakar alltaf fyrir jólin og minnkar ekki sykurinn í uppskriftunum því það eru jólin og þá má fólk sukka smávegis. Þorbjörg Bragadóttir býr í Sandgerði ásamt eiginmanni Jóni bónda Sigurðssyni. Hún er ein af þessum kjarnakonum sem bakar, þrífur, býr til jólagjafir og einnig sín eigin jólakort. Það er nóg að gera vikurnar fyrir jól en hún segist elska jólin og allt umstangið í kringum þau.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólabarn eins og móðir mín

„Ég baka alltaf og ég minnka ekki sykurinn í uppskriftunum. Það eru bara jólin og þá má sukka. Auðvitað baka ég færri tegundir í dag því krakkarnir okkar eru farnir að heiman og svo hefur fólk minnkað smákökuátið. Ég baka samt alltaf súkkulaðibitasmákökur en sú uppskrift kemur frá bandarískri vinkonu minni sem ég kynntist þegar ég var í einkaritaraskóla á Englandi,“ segir Þorbjörg hressilega og heldur áfram: „Ég er mikið jólabarn alveg eins og mamma mín var. Þegar ég var lítil stelpa föndruðum við mikið fyrir jólin og ég geri það enn. Við systur erfðum þessa áráttu frá móður okkar sem elskaði jólin. Mamma bjó alltaf til sælgæti fyrir jólin og það geri ég einnig. Súkkulaðikaramellur, kókoskúlur og döðlugott er ómissandi fyrir jólahátíðina. Jólahefðirnar koma mikið úr fjölskyldu minni. Maðurinn minn er að norðan og þaðan höfum við tekið upp þann sið að skera út í laufabrauð og steikja. Í dag kaupi ég tilbúið deigið en svo koma allir saman sem geta eina kvöldstund, börn og barnabörn og skera út. Það er ógurlega skemmtileg samverustund.“

Sendir fullt af jólakortum

„Mér finnst ótrúlega gaman að búa til jólakortin sjálf. Þegar ég er búin hanna þau þá tek ég heila helgi í að búa þau til og skrifa á þau. Jólakortinu fylgir einnig fréttabréf um hver jól þar sem ég segi fréttir af fjölskyldu okkar Jóns, börnum og barnabörnum okkar. Auðvitað hefur bunkinn minnkað en ég skrifaði og sendi áður 150 kort en í dag eru þau orðin 70 talsins. Ég fer alltaf yfir jólakortin frá í fyrra og þá sé ég hverjir senda okkur og við sendum þeim að sjálfsögðu til baka. Mér finnst þetta svo skemmtilegur siður og vil alls ekki hætta þessu. Það er rosa gaman að fá jólakort og senda jólakort. Allt við jólin finnst mér svo skemmtilegt.“

Jólaljósin eru notaleg

„Fyrir mér eru jólin trúarleg hátíð. Ég verð alltaf að fara í kirkju en ég er aðventisti og við förum í kirkjuna okkar í Keflavík klukkan hálf fimm á aðfangadag. Það er mjög hátíðlegt með helgileik barna, jólasöng og kertaljósum. Eftir messu höfum við farið heim til einhverra af börnum okkar, en við eigum fjögur börn og fjögur barnabörn. Við fögnum með þeim og barnabörnunum en ég kem alltaf með lambalærið sem er fyllt af sveskjum og eplum. Það er jólamaturinn okkar um hver jól með brúnuðum kartöflum, brúnni sósu, steiktu grænmeti og grænum baunum. Heimagerður vanilluís með þeyttum rjóma í eftirrétt,“ segir Þorbjörg en eiginmaður hennar og hún eru ennþá með örlítinn fjárbúskap í sveitinni í Sandgerði og úr eigin búskap fá þau ferskt lambakjöt á hverju hausti. Þau áttu heima fyrir norðan fyrstu búskaparárin sín á bóndabæ þeirra í Kelduhverfi, þar bjuggu þau saman í átján ár en fluttu svo suður árið 1998.

Jólaandinn kemur með skrautinu

„Ég er mjög hefðbundin hvað varðar jólahald, þríf skápa heima hjá mér í desember og allt húsið áður en ég skreyti fyrir jól, set upp jólagardínur og svona. Við byrjum að setja upp jólaljósin úti svona frá fyrsta í aðventu en það lýsir upp skammdegið. Hér inni skreytum við tveimur dögum fyrir jól. Jólatréð tendrum við klukkan sex á aðfangadag. Ég vil ekki hafa jólaskrautið hangandi uppi of lengi, það bara rykfellur og mér finnst ég njóta þess betur ef það fær að vera bara yfir hátíðarnar. Jólin koma þegar skrautið er komið upp og þá kemur þessi yndislegi jólaandi,“ segir Þorbjörg með sælubros á vör.

Amerískar súkkulaðibitakökur Þorbjargar:

2 ¼ bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt (sigtað og lagt til hliðar)
1 bolli mjúkt smjörlíki (175 gr)
¾ bolli sykur
¾ bolli púðursykur
1 tsk vanilludropar
½ tsk vatn
2 egg (þeytt mjög vel saman og bætið síðan hveitiblöndunni saman við)
2 bollar súkkuliðabitar
1 bolli hnetur, smátt saxaðar

Bakaðar við 180°C í tíu mínútur.


 



Þorbjörg er mikil hannyrðakona.