Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jólaballið heima í stofu er eftirminnilegt
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 21. desember 2019 kl. 07:17

Jólaballið heima í stofu er eftirminnilegt

Guðrún Lovísa Magnúsdóttir, Lúlla, Vogum Vatnsleysuströnd:

„Þegar klukkan sló sex á aðfangadag byrjuðu jól. Við kveiktum á kertunum á trénu en jólagjafir voru ekkert atriði,“ segir Guðrún Lovísa Magnúsdóttir, Lúlla, heiðursborgari í Vogum Vatnsleysuströnd þegar hún rifjar upp jólin þegar hún var lítil. Guðrún er 97 ára og rifjar hér upp jólaminningar frá því í gamla daga.

„Ég fæddist árið 1922 á Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd, rétt hjá vitanum. Við vorum sjö systkinin. Þegar ég var tveggja ára fluttum við á Sjónarhól á Vatnsleysuströnd. Þetta var steypt hús sem stendur autt núna. Þegar við bjuggum þarna var ekkert rafmagn. Kamarinn var úti, gengum upp tröppur og þetta fór ofan í haughúsið þar sem það blandaðist úrganginum úr fjósinu. Ég man að það var alltaf vindur á rassinn á kamrinum. Á bænum voru fimm kýr, fullt af kindum, hænsnin voru við hliðina á búrinu úti. Hundur og köttur voru einnig á bænum. Við sóttum vatn í brunn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðfangadagur var heilagur dagur

„Ábyggilega var okkur þvegið úr bala fyrir jólin og vatnið hitað áður. Þetta var mikil hátíð, sérstaklega nokkrum dögum eftir aðfangadag en þá fengum við að bjóða krökkum af næstu bæjum að koma heim til okkar að syngja og dansa í kringum jólatréð. Við vorum öll svo dugleg að syngja sálma. Fyrir jólin var alltaf eitthvað saumað á mig en það var frænka mín í Hafnarfirði sem sá um það. Ég man ekki eftir að við höfum fengið jólagjafir heldur bara gott að borða, alltaf kjöt og heldur meira en á sunnudögum. Jólaballið í stofunni heima er mér minnisstæðast þegar krakkarnir komu. Við vorum með lítið gervitré sem stóð ofan á kassa. Kennarinn okkar kenndi okkur að búa til bréfpoka sem við hengdum á tréð. Aðfangadagur var heilagur dagur, við máttum ekki hreyfa okkur en við máttum syngja sálma.“