Jóla hvað? Veraldlegar gjafir skipta litlu máli
Bryndís Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri við Akurskóla og fjölskylda hennar snæða krónhjört á aðfangadag og í forrétt er „Ris a la mande“. Henni er kærast að vera með sínum nánustu yfir hátíðarnar en hún á stóra fjölskyldu. Fjögur börn og mann, auk þess sem hún á fjórar systur sem ólust upp með henni á Lyngholtinu í Keflavík. Veraldlegar gjafir skipta Bryndísi litlu máli en við lögðum fyrir hana nokkrar léttar jólaspurningar.
Fyrstu jólaminningarnar?
Þegar ég var um tveggja til þriggja ára fékk ég dúkku í jólagjöf sem ég hljóp upp á bað með og skírði Gunnu. Það er líka greipt í minninguna þegar ég og Guðrún Birna systir mín fengum kasettutæki saman og þurftum að deila því. Grjónagrautur með saft kemur einnig upp í hugann og yndislegar samverustundir með fjölskyldunni.
Jólahefðir hjá þér?
Snemma í desember set ég alltaf upp jólaórana frá Georg Jensen sem móðir mín gaf mér eftir að börnin mín fæddust. Börnin mín hafa síðan haldið áfram að gefa mér þá eftir að hún lést og þykir mér virkilega vænt um það. Fjölskyldan hefur líka frá því við bjuggum í Danmörku haft „Ris a la mande“ með kirsuberjasósu á aðfangadag.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Já, ég er það. Mér finnst mjög gaman að elda og enn skemmtilegra að útbúa góða eftirrétti.
Jólamyndin?
Sú mynd sem kemur fyrst upp í hugann er Jólaósk Önnu Bellu og svo er það Tröllið sem stal jólunum.
Jólatónlistin?
Ég hlusta mikið á Jólgesti Björgvins Halldórssonar og jóladiskinn „Ein handa þér“ með Stefáni Hilmarssyni í desember.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Þetta árið verslaði ég nokkrar jólagjafir í London en kláraði innkaupin á Íslandi.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Já, frekar. Það eru mörg börn í fjölskyldunni sem ég hef gaman af að gleðja.
Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Nei, ég er nú ekkert sérstaklega vanaföst en ég kveiki samt alltaf á RÁS 1 á aðfangadag og bíð eftir að jólin hringi inn klukkan 18:00.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Besta jólagjöfin mín ár hvert eftir að ég varð fullorðin er að eiga heilbrigða fjölskyldu og að hafa fólkið mitt hjá mér.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Við borðum „Ris a la mande“ í forrétt, krónhjört í aðalrétt og eftirréttinn snæðum við hjá tengdaforeldrum mínum. Þegar við höfum opnað gjafirnar er hefð að fara til tengdaforeldra minna og þar fáum við einhverja girnilega rétti. Tengdamamma mín er snilldarkokkur og ég hlakka alltaf til að borða kræsingarnar sem hún ber á borð.
Eftirminnilegustu jólin?
Jólin 2004 eru sterk í minningunni. Þá lá móðir mín á gjörgæsludeild Landspítalans og við systurnar skiptumst á að dvelja hjá henni. Það var sérstök upplifun að dvelja á þeim stað yfir hátíðarnar þegar andi jólanna sveif yfir vötnum en innan veggja sjúkrahússins var fólk að berjast fyrir lífi sínu. Mér er líka ofarlega í huga síðustu jól þegar ég fór með eiginmanni og börnum til Florída, það var virkilega skemmtilegt.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Þegar maður er komin á minn aldur skipta veraldlegar gjafir litlu máli. En mér finnst alltaf vænt um þær gjafir sem ég fæ því gjöfin sem slík tengir mig og hugsanir mínar við gefandann.