Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jóla hvað? Upp í bústað að baka
Sunnudagur 25. desember 2011 kl. 15:48

Jóla hvað? Upp í bústað að baka



„Við fjölskyldan, ásamt mömmu minni og pabba, Elmari bróður og Sæunni konunni hans höfum farið upp í sumarbústað eina helgi á aðventunni nú í þónokkur ár og bakað. Þar er m.a. stórbakstur á skinkuhornum auk þess sem krakkarnir fá að baka piparkökur og skreyta. Þessi sami hluti fjölskyldunnar hittist alltaf á veitingastað kl. 6 á Þorláksmessu og borðar saman, sem er yndislegt,“ segir Þóranna Kristín Jónsdóttir sem rekur sitt eigið fyrirtæki og aðstoðar stjórnendur fyrirtækja við að auka afköst í rekstri fyrirtækja með markaðseinkaþjálfun- og ráðgjöf.

Fyrstu jólaminningarnar?
Yndislegar minningar frá jólunum hjá ömmu og afa á Ísafirði. Sátum í gömlu stofunni og tókum utan af gjöfum og á hillunni var Armstrong, en það var jólasveinn sem pabbi og bræður hans föndruðu einhver jólin þegar þeir voru ungir og var með rosalega langar hendur og var þ.a.l. kallaður Armstrong. Hlýjar og ljúfar minningar um ömmu mína og afa sem nú eru fallin frá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólahefðir hjá þér?
Ja, þær eru nú nokkrar. Við fjölskyldan, ásamt mömmu minni og pabba, Elmari bróður og Sæunni konunni hans höfum farið upp í sumarbústað eina helgi á aðventunni nú í þónokkur ár og bakað. Þar er m.a. stórbakstur á skinkuhornum auk þess sem krakkarnir fá að baka piparkökur og skreyta.
Þessi sami hluti fjölskyldunnar hittist alltaf á veitingastað kl. 6 á Þorláksmessu og borðar saman, sem er yndislegt.
Þorláksmessuskata hjá Öldu, föðursystur minni – en sú fjölskylda er öll frá Ísafirði. Ég hef unnið mig upp í það á þónokkrum árum að borða skötu. Byrjaði á einum bita, svo voru það tveir ári síðar og svo koll af kolli. Það þýðir að nú má ég sitja við borðstofuborðið á Þorláksmessu, sem er mikill heiður, en það fá bara þeir sem borða skötu – hinir sem gæða sér á heimabökuðum skonsum og hangikjöti verða að sitja í stofunni og eldhúsinu.
Þær eru ýmsar fleiri en yrði of langt mál að telja þær upp allar.

Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Nei, ekki get ég sagt það. Ég er svo fordekruð af móður minni og tengdamóður að ég hef aldrei þurft þess, ha ha ha!

Uppáhalds jólamyndin?
Man ekki eftir neinni sérstakri uppáhalds.

Uppáhalds jólatónlistin?
Eftir að hann kom út, þá er jóladiskurinn með KK og Ellen Kristjáns í algjöru uppáhaldi. Fallegasti jóladiskur sem hefur nokkurn tímann verið gefinn út.

Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Úti um allar trissur.

Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Bara passlega mikið. Nánasta fjölskylda, og ég og Sesselja vinkona mín höfum skipst á gjöfum síðan við vorum unglingar og það er skemmtileg hefð sem við höldum – og börnin okkar eru með líka.

Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Ég er í sjálfu sér ekkert voðalega vanaföst sjálf, en fólkið í kringum mig er það, og hátíðirnar í sjálfu sér vilja verða það, þannig að þetta breytist ekki mikið. Ég sjálf er samt alltaf til í að prófa eitthvað nýtt ef svo ber undir.

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Fyrsta jólagjöfin sem maðurinn minn gaf mér – sem þá var ekki einu sinni opinberlega orðinn kærastinn minn. Ekki að gjöfin sem slík hafi verið svo frábær, falleg gullhálsfesti, en bara það að hann skyldi gefa mér hana sagði mér allt sem segja þurfti og við erum búin að vera saman núna í 19 ár þessi jól :)

Hvað langar þig í jólagjöf?
Langar mann ekki alltaf í eitt og annað? Mig langar bara aðallega að knúsast og kúra með fjölskyldunni .

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Ætli það verði ekki kalkúnn. Höfum almennt haft það, aðallega af því að ég þoli illa reyktan og saltan mat og allir eru sáttir við kalkúninn. Við erum alltaf með humar í forrétt, sem mamma og pabbi elda af snilld og rjómasósan hennar mömmu er geggjuð með. Svo er jólagrautur með möndlu í eftirrétt – og Mars-rjómasósa út á.

Eftirminnilegustu jólin?
Jólin sem við eyddum í London, sem voru síðustu jólin áður en við fluttum heim, semsagt jólin 2003. Mamma, pabbi og Elmar bróðir komu út til okkar og fóru svo milli jóla og nýárs en þá kom Grindjánavinahópurinn okkar og var hjá okkur yfir áramótin. Hrikalega gaman! Jól í 30 fm íbúð með svona ca. 40 cm gervitré sem stóð á glerborði og pakkarnir undir og svo fórum við í heimsókn til ítalsks nágranna okkar á jóladag og fengum hefðbundnar ítalskar jólakræsingar. Væri alveg til í að upplifa fleiri óhefðbundin jól erlendis.