Jóla hvað? Langar í sebrahest!
Njarðvíkingurinn og grafíski hönnuðurinn, Hildur Hermannsdóttir býr þessa dagana í Osló í Noregi. Hún hefur í nógu að snúast og er þessa stundina með þrjár vinnur; Hún er barþjónn á glæsilegum kokteilbar, þjónn á amerískum diner og síðan vinnur hún í tveimur vintage fatabúðum líka.
Inni á milli þess sem hún er að vinna, þá er Hildur alltaf að teikna og hanna, hún er m.a. núna að útbúa plakat fyrir Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins í Reykjavík og er síðan að fara að gera listaverk í annarri fatabúðinni sem hún vinnur í með Ernu vinkonu sinni. Hún segir planið vera að dvelja í Noregi í 1-2 ár og græða smá pening, hana langar svo að fara í frekara listnám. Hildur er mikið jólabarn og við fengum hana til þess að segja okkur aðeins frá jólunum sínum.
Fyrstu jólaminningarnar þínar?
Ég hef alltaf verið mjög óþolinmóð og það byrjaði snemma. Ég man ég fékk þríhjól í jólagjöf þegar ég var bara pínupons, þá opnaði ég pakkann áður en við borðuðum matinn og var nú eitthvað skömmuð fyrir það.
Síðan kláraði ég allt súkkulaðidagatalið mitt í einum rykk og kenndi Jónu systur um það. Ég kláraði líka súkkulaðidagatalið hennar Dillu frænku, ég er greinilega mjög mikill sökker fyrir súkkulaði.
Jólahefðir hjá þér?
Ég hef alltaf verið hjá mömmu og pabba yfir jólin. Amma mín og afi búa í risinu þar svo að við höfum alltaf verið öll saman. Systir mín, hennar maður og börnin þeirra þrjú eru líka alltaf með og Bjössi frændi líka. Litli bróðir minn Egill býr núna í Ástralíu og það var mjög furðulegt að hafa hann ekki með í fyrra. Þessi jól mun ég vera hér í Osló. Svo að bæði ég og bróðir minn verðum fjarverandi þessi jólin, sem er skrítið. En það er í góðu lagi að prufa nýja hluti.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Nei mamma og pabbi hafa verið svo miklir meistarar við þetta að maður hefur bara alltaf fylgst dolfallin með.
En þetta árið verð ég ekki heima á Íslandi. Ég er nú að fara að reyna mína frumraun sem jólahátíðarmatreiðslumeistari hérna á heimili mínu í Osló. Ég er svolítið stressuð yfir þessu en hef ákveðið að elda önd og Jói kærastinn minn og Narfi hundurinn okkar eru þeir einu sem fá að smakka.
Jólamyndin?
Christmas Vacation! En mig langar að taka Harry Potter maraþon þessi jól.
Jólatónlistin?
Á Charlie Brown Christmas með Vince Guaraldi. Það er fullkomin jólaplata en þetta er jólatónlistin fyrir teiknimyndirnar Smáfólk (Peanuts). Mjög falleg, hátíðleg og krúttleg músík.
Ég hef líka verið að hlusta undanfarið á Peel XMas Session 18-12-2002 með Belle & Sebastian, já ég er byrjuð að hlusta á jólatónlist.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
í TIGER!
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Þetta verða eitthvað í kringum tuttugu stykki held ég en maður reynir að halda þessu í skefjum þar sem maður býr erlendis, minnsta kosti reynir að finna eitthvað mjög létt og fyrirferðarlítið.
Ertu vanaföst um jólin?
Nei ekkert svo ég vil bara hafa það kósí. Sofa mikið, borða mikið, horfa á krúttlegar bíómyndir og lesa í bók.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Kærastinn minn hann Jói gaf mér hundinn okkar hann Narfa síðustu jól. Ég held að það sé næstum ómögulegt að toppa það, ekki nema hann gefi mér sebrahest.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Andrés önd!
Eftirminnilegustu jólin?
Held að það hafi verið þarsíðustu jól, þegar ég fór óvænt með kisurnar mínar tvær heim til mömmu og pabba, en um leið og þær voru komnar úr búrunum að skoða sig um húsið þá sló rafmagnið út. Það varð uppi fótur og fit með týndar kisur og læri í ofninum í kolniðamyrkri, en rafmagnsleysið stóð ekki lengi yfir sem betur fer. Allir fengu góðan mat og kisurnar komu í leitirnar.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Sebrahest!
Mynd: Jói Kjartans