Jóla hvað? Jólalögin að sjálfsögðu með Elvis
Sigurbjörn Jónsson er námsmaður í Horsens í Danmörku. Hann segir jólin ekkert vera neitt sérstök í Danmörku og hann hlakkar alltaf til að koma heim yfir hátíðarnar.
Fyrstu jólaminningarnar?
Pakkaflóðið í gamla daga og ekki síst stærðin á þeim.
Jólahefðir hjá þér?
Vegna búsetu erlendis síðan 2008 hafa myndast þónokkrar hefðir eftir það sem eru meira tengdir allri jólaheimsókninni en ofát, heimsóknir, ofát, kirkjugarðsheimsóknir, ofát, jólakortaupplestur hjá mér og bróður mínum sem er hálfgerður annáll ársins, hefur verið hluti af jólahaldinu undanfarin ár.
Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Nei, er með her aðstoðarmanna sem sjá um þrældóminn.
Uppáhalds jólamyndin?
Geri ekki upp á milli Christmas Vacation, The Muppet Christmas Carol og Santa Claus seríunnar.
Uppáhalds jólatónlistin?
Elvis (að sjálfsögðu), Bing, Ellý og Vilhjálmur og almennt langflest íslensk jólamúsík en samt veikari fyrir því sem kom út fyrir árið 2000. Barnalögin skipa líka stóran sess ásamt Baggalútsmönnum.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Bæði í Horsens og einnig á Íslandi.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Um það bil 15 sýnist mér.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Fyrir utan að sjálfsögðu pakkaopnun og hangikjöt á jóladag að þá er þetta ekki kannski gríðarlega fastmótað. Kirkjugarðsheimsókn á aðfangadag hefur verið fastur liður síðan 1994.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Kannski ekki einn hlutur sem stendur upp úr en það sem ég bíð í mestri óþreyju eftir við að koma heim í jólafrí er að sjá son minn. Þessi jól verður það sérstaklega ánægjulegt þar sem tæpt ár verður síðan að ég sá hann síðast.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Vantar svona stakan hátalara við tölvuna, svo er pottþétt einhver geisladiskur og bók sem ég hef áhuga á en hef ekki skoðað úrvalið ennþá. Svo má alltaf bæta í skyrtusafnið.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Bróðir minn kom með þá snilldarhugmynd í fyrra að skipta á gamlárskvölds- og aðfangadagskvöldmatnum til að létta byrðina á maganum hvað varðar reykt þungt kjöt og það verður gert aftur. Hátíðarkjúklingur skilst mér að verði aftur núna og svínakjötið sett á gamlárskvöld í staðinn. Hangikjötið er að sjálfsögðu á jóladag. Það er reyndar sú máltíð sem ég bíð alltaf spenntastur eftir í Íslandsdvölinni í desember.
Eftirminnilegustu jólin?
Það eru nokkur jól sem standa upp úr vegna ólíkra hluta frá fyrri tíð en í framtíðinni verða þessi jól og þrjú síðustu mjög eftirminnileg þar sem ég kem alltaf heim um jólin til Íslands frá Danmörku sem er gjörsamlega skreytingarlaust land og að mörgu leyti ákaflega þurrt hvað jólin varðar. Íslenskar öfgar eru frábærar að þessu leyti svo ég segi 2008-9-10 og þetta ár sem verður vonandi það síðasta í búsetu erlendis.