Jóla hvað? Jóladagur fer í leti
Álfhildur Sigurjónsdóttir svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttum sem við kjósum að kalla Jóla hvað?
Fyrstu jólaminningarnar?
Eru sennilega um 6 ára aldurinn eða um 1971. Foreldrar mínir keyptu epla- og appelsínukassa og settu upp á háaloft. Þá vissi maður að eitthvað var að gerast. Í þeirri sömu ferð var jólaskrautskassinn tekinn niður og húsið skreytt hátt og lágt, meira að segja loftið var allt í skrauti. Ég gleymi aldrei lyktinni því húsið angaði allt af sápulykt í bland við mat og kökulykt. Afi Skúli og Óli frændi komu í heimsókn, það var toppurinn.
Jólahefðir hjá þér?
Næstum eins og mamma nema minni bakstur, minni þrif. Borðað klukkan 18:00 á aðfangadag og allir í sparifötum takk fyrir. Pakkarnir teknir upp eftir að búið er að vaska upp.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Já, við skulum segja að þá er ég duglegust í eldhúsinu.
Uppáhalds jólamyndin?
Miracle on 34th street frá árinu 1994 ekki spurning! Það hefur engin mynd komið út að mínu mati sem hefur toppað hana. Ég á hana á DVD og kemur hún niður með skrautinu á hverju ári.
Uppáhalds jólatónlistin?
Öll íslensk jólalög, eiginlega alveg sama með hverjum.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Bara þar sem mér dettur í hug í það skiptið.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Já frekar. Mér finnst svo gaman að gefa jólagjafir og drita út um allar áttir. Ég á það stundum til að vera byrjuð að versla þær um mitt ár og púkast fram að jólum. Elska þennan tíma.
Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Fyrir utan að vera eins og geðsjúklingur og skreyta allt hátt og lágt þá er yfirleitt alltaf sama rútínan hér á bæ. Aðfangadagur klukkan 18:00 heilagur, jóladagur fer í leti og samveru við börnin og stórfjölskyldu. Já og svo er eitt, ég verð alltaf að hringja í foreldra mína á aðfangadag eftir að hafa opnað pakkana þrátt fyrir að mamma búi nánast í næsta húsi við mig, ég bara verð að gera þetta því það er einn liður í helgihaldinu að ræða við þau á þessum tímapunkti. Svo já ég er greinilega vanaföst þrátt fyrir að hafa ætlað að segja nei.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Frumburðurinn minn Elísa fæddist 20. desember 1985. Þá urðu konur að liggja í heila viku á sjúkrahúsi og vorum við mæðgur þar yfir jólin. Þetta eru ein þau fallegustu jól sem ég hef upplifað. Starfsfólkið yndislegt, kórsöngur á göngunum á jóladag og andrúmsloftið þarna var allt svo hátíðlegt. Þrátt fyrir að ég hafi verið þarna mjög ung og alein þá fannst mér forréttindi að fá að upplifa þetta. Nú 26 árum seinna man ég þetta eins og þetta hefði verið í fyrra.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Æi eiginlega ekkert svei mér þá nema að fá að vera með fjölskyldunni minni allri í sátt og samlyndi.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Hamborgarhryggur með öllu. Hér á bæ eru ekki jól nema „þessi matur og þessi sósa“ séu á borðum takk fyrir. Mér var tilkynnt það fyrir nokkrum árum þegar mig langaði að breyta til.
Eftirminnilegustu jólin?
Jólin 1985, ekki spurning.