Jóla hvað? Er ekki dugleg að hjálpa mömmu
Eyrún Líf Sigurðardóttir er 19 stúlka frá Njarðvík sem stundar nám við Verslunarskóla Íslands. Hún æfir körfubolta með meistaraflokki Njarðvíkinga.
Fyrstu jólaminningar þínar? Alltaf þegar ég hugsa um jólin þá hugsa ég um ömmu og afa en afi var mikið jólabarn og mér fannst alltaf skemmtilegast að vera hjá þeim um jólin og á alveg endalaust af minningum þaðan.
Áttu þér einhverjar jólahefðir? Við fjölskyldan erum ekki með neinar sérstakar hefðir en samt er eiginlega alltaf sama rútínan um jólin. Byrjum að skreyta 1. des., setjum upp jólatréð á Þorláksmessu, ég og pabbi höfum oftast keyrt út jólakortin á aðfangadag á meðan mamma eldar, svo eftir matinn og pakkana förum við oftast til ömmu. Svo eru náttúrulega jólaboð á hverju ári.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðarnar? Mér þykir leiðinlegt að segja það, en nei, ég er ekki dugleg að hjálpa mömmu. Held að við séum öll hrædd um að þvælast fyrir eða skemma því mamma er alveg með sérstakt plan á þessu öllu.
Jólamyndin? Við fjölskyldan horfum saman á Christmas Vacation hvert einasta ár.
Jólatónlist? Mér finnst jólatónlist ekki skemmtilegasta tónlistin en auðvitað hlustar maður á eitthvað og þá er það diskurinn sem mamma og pabbi eiga, Absolute Christmas.
Hvar verslarðu jólagjafirnar? Enginn sérstakur staður en hef verið að panta frá Ameríku stundum, annars bara í öllum búðunum í Kringlunni og Smáralind.
Gefurðu mikið af gjöfum? Nei alls ekki, 2-3.
Ertu vanaföst um jólin? Ekkert svakalega, en ég, mamma og systir mín pökkum alltaf inn gjöfum saman með jólatónlist undir.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið? Stendur engin upp úr, allar flottar hvert ár.
Jólamaturinn? Kalkúnn og allt með því.
Eftirminnilegustu jólin? Eitt árið varð allt rafmagnslaust rétt fyrir klukkan sex á aðfangadag. Við biðum alltaf eftir kirkjuklukkunum hringja klukkan sex í útvarpinu en gátum það ekki þetta skiptið.
Hvað langar þig í jólagjöf? Ég fékk að velja hvað ég fæ frá mömmu og pabba og ég valdi mér jeffrey campbell skó, mig langaði mest í það.