Jóla hvað? Bleikt kerti besta gjöfin
Fríða Dís Guðmundsdóttir söngkona Klassart er mikið jólabarn og þetta árið mun reyna á hana í eldhúsinu. Hún og systir hennar munu sjá um jólahaldið sem fram fer í Sandgerði. Það situr enn í Fríðu þegar hún fékk eitt sinn hálfa kartöflu í skóinn.
Fyrstu jólaminningarnar?
Í húsinu sem ég bjó í fyrstu níu ár ævi minnar var langur gangur frá svefnherbergjunum og fram í eldhús. Ég er nokkuð viss á því að fyrstu jólaminningarnar tengist því að ég átti alltaf að fara fram á gang á meðan mamma pakkaði inn gjöfunum til mín. Biðin var oft löng en bæði ærslafull og spennandi. Þegar ég var fjögurra ára fékk ég einu sinni hálfa kartöflu í skóinn ásamt nammi, kartaflan stendur ennþá í mér.
Jólahefðir hjá þér?
Hefðin hefur verið mjög afslöppuð fyrir jólin hjá okkur í Sandgerði fyrir mitt leyti þar sem mamma er vön að sjá um allt og alla án þess að maður megi nokkuð gera. En í ár horfir þetta öðruvísi við því hún er að fara í brjósklosaðgerð rétt fyrir jól og við systir mín fáum því að sjá um hana og heimilið á meðan (þó aðallega að sjá til þess að hún fari ekki of geist af stað).
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Ég hef verið ágætis hjálparkokkur hingað til að ég held, en það reynir kannski í fyrsta sinn á það fyrir alvöru þessi jól. Mamma er þó auðvitað búin að baka allar sortir og gott ef hún er ekki bara búin að elda hamborgarhrygginn líka. Ég ætla þó að baka lakkrístoppa fyrir kærastann minn til að hala inn nokkrum stigum þegar prófa- og músíkstússinu er að mestu leyti lokið hjá mér.
Jólamyndin?
Við jólatréð, mátulega löng teiknimynd með íslensku tali sem fylgdi eitt sinn með pylsupakka. Ég og Særún systir mín horfum alltaf á hana saman á aðfangadag, þá mega jólin fyrst koma. Annars er ég líka af Home Alone kynslóðinni.
Jólatónlistin?
Mér þykir skemmtilegast að hlusta á íslenska jólatónlist. Uppáhalds jólaplöturnar mínar eru Skemmtilegustu lög Gáttaþefs með Ómari Ragnarssyni, Desember með Siggu Beinteins og platan sem fór ekki úr spilaranum síðustu jól er Majones Jól með Bogomil Font, ákaflega skemmtileg plata. Ég kvarta þó ekki ef ég kemst í jólalög Spike Jones eða Bing Crosby og aðrar perlur.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Á eins fjölbreyttum stöðum og þær eru margar.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Nei svo sem ekki, bara þeim allra nánustu. Jólakortin frá mér munu þó vonandi gleðja fólkið í kringum mig fyrst buddan er svona úthverf og ómöguleg.
Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Við systurnar hlaupum alltaf með síðustu jólakortin á aðfangadag ásamt því að horfa á jólamyndina okkar áður en við förum í dressið.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Úff, þær eru ansi margar. Þegar ég var eins árs fékk ég stórt bleikt kerti í jólagjöf frá bróður pabba og konu hans en kertið er í laginu eins og jólatré. Það hefur alltaf verið uppáhalds jólaskrautið mitt og ég hef aldrei tímt að kveikja á því nema einu sinni. Þannig bar að garði að ég og mamma sættumst á það ein jólin að nú skyldum við kveikja á kertinu, ég hef ekki verið eldri en fimm eða sex ára. Kveikiþráðurinn var rosalega langur og þetta var mikil athöfn fyrir mig. Þegar eldurinn á kveikiþráðnum nálgaðist kertavaxið fékk ég næstum því taugaáfall og fór að hágráta og blés á logann, þá var bræðrum mínum skemmt.
Þorsteinn kærastinn minn gaf mér líka fallega og hlýja úlpu síðustu jól sem er kuldaskræfunni mjög kærkomin.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Heimsins besti hamborgarhryggur að hætti mömmu og pabba, ef ég er hjá tengdó er það dýrindis kalkúnn sem er skemmtileg tilbreyting.
Eftirminnilegustu jólin?
Þau voru haldin gleðileg í Sandgerði. Ég fékk safndiska með Jamiroquai og Michael Jackson í jólagjöf og ég og Særún systir mín skelltum þeim í tækið og dönsuðum í hláturskasti um gjörvalla stofuna, upp á stólum og borðum eins og fífl, fjölskyldunni til mikillar ánægju. Fyrstu jólin sem ég hélt úti á Flórída hjá tengdó voru líka undarleg en skemmtileg í sól og sumaryl.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Ég er ósköp nægjusöm og eins klisjukennt og það nú hljómar þá er ást og nærvera minna nánustu meira en forréttindi. En ef fólk vill sýna ást í gjöfum og er í stökustu vandræðum með mig má það hafa augun opin fyrir Sögunni af Dimmalimm eftir Mugg. Heimatilbúnar gjafir eru alltaf í mjög miklu uppáhaldi. Kerti, bækur, hlý náttföt og góðir sokkar eru líka uppskrift að góðum jólum.