Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Jóla hvað? Andrés Þórarinn Eyjólfsson
Laugardagur 10. desember 2011 kl. 14:16

Jóla hvað? Andrés Þórarinn Eyjólfsson


Fyrstu jólaminningarnar?
Ætli ég hafi ekki verið kominn með almennilegt vit á jólunum í kringum 6 ára aldurinn, en þá var ég búsettur í Danmörku. Það sem ég man einna helst eftir var jólaundirbúningurinn í skólanum þar sem ég fékk að lita og klippa jólasveina og búa til músastiga. Heima fyrir voru alltaf bakaðar smákökur sem voru síðan vel skreyttar af okkur systkinunum. Ég man voðalega lítið eftir því hvað fjölskyldan fékk að borða yfir hátíðirnar enda gæti ég vel trúað að hugur minn hafi allur verið á jólapökkunum sem voru undir jólatrénu. Milli jóla og nýárs fóru allir krakkarnir í hverfinu út að leika í snjónum og þá var vinsælast að búa til snjóengla, snjókalla og snjóhús.

Jólahefðir hjá þér?
Já, eftir að við Jóhanna fórum að halda okkar eigin jól með stelpunum okkar þá höfum við þróað með okkur einhverjar hefðir. Við förum til dæmis alltaf í Þorláks-pizzu heim til mömmu því ekkert okkar þykir skatan góð og svo förum við í kvöldgöngu niður í bæ. Á aðfangadagsmorgni förum við Alísa Rún og Lovísa í bíltúr með restina af jólakortunum og kíkjum svo í heimsóknir til langafa og ömmur. Jóladagur er síðan algjör afslöppunardagur en ef það er snjór úti þá förum við fjölskyldan yfirleitt út með sleða og rennum okkur aðeins í brekkunum og dagurinn endar yfirleitt á matarboði hjá mömmu eða tengdó.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Ég skal alveg viðurkenna það að ég mætti vera duglegri í eldhúsinu yfir hátíðirnar. En sem betur fer þá á ég frábæra unnustu sem er komin með mjög góða reynslu í að elda þennan dýrindis hamborgarhrygg.

Jólamyndin?
Christmas vacation er gömul og góð.

Jólatónlistin?
Mér finnst jólalögin með Baggalúti mjög góð og síðan eru þessi gömlu og góðu klassísku jólalög einnig mjög góð.

Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Þar sem verðið er sanngjarnast.

Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Nei, það finnst mér ekki.

Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Nei, þetta er nú frekar þægilegt hjá okkur en það hefur skapast hefð fyrir því að taka ljósmynd af fjölskyldunni rétt áður en við setjumst til borðs og svo fá börnin að opna einn pakka áður en við borðum.

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Það er erfitt að gera upp á milli gjafa þar sem ég hef fengið margar mjög veglegar gjafir. En fyrir svona ca. 10 árum síðan fékk ég gönguskó frá pabba mínum og þeir eru enn þann dag í dag í miklu uppáhaldi hjá mér.

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Hamborgarhryggur í aðalrétt og frómas í eftirrétt.

Eftirminnilegustu jólin?
Þegar við Jóhanna og eldri dóttir okkar Alísa Rún áttum okkar fyrstu jól saman sem fjölskylda. Á aðfangadegi hafði ekkert snjóað í nokkra daga og allt stefndi í rauð jól og við ætluðum að gefa dóttur okkar snjósleða í jólagjöf. En þegar við vöknuðum á jóladegi þá var allt orðið hvítt og í þokkabót þá fengum við Jóhanna mjög góða gönguskó í jólagjöf. Við klæddum okkur vel og fórum í mjög eftirminnilega gönguferð um bæinn þar sem Alísa Rún svaf meirihlutann af ferðinni á nýja sleðanum sínum.

Hvað langar þig í jólagjöf?
Ég verð nú að viðurkenna að mig langar pínulítið í Iphone 4s eftir að hafa hlustað á samkennara mína Guðna og Gunna bera síma sína saman. En ég yrði líka afskaplega ánægður ef ég fengi góðan rakspíra og eina góða bók til að lesa yfir jólin.